„Það er sífellt þrengt að okkur og verið að hægja á umferð þarna þannig að við höfum talsvert miklar áhyggjur af þessu og við mótmælum þessu harðlega,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, um fyrirhugaðar breytingar á gönguþverun yfir Ánanaust.
Fulltrúar meirihlutaflokkanna í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur bókuðu að til framtíðar væri æskilegt að breyta hringtorginu við JL-húsið í klassísk ljósastýrð T-gatnamót.
Tillaga um endurbætur á umræddu svæði barst frá skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Í greinargerð samgöngustjóra kemur fram að Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafi unnið að tillögunni í sameiningu með það að markmiði að bæta umferðaröryggi og aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda.
Ekki hefur verið rætt við bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar í tengslum við framkvæmdirnar enn sem komið er.
„Við viljum vera með í ráðum í svona veigamiklum breytingum og munum koma okkar athugasemdum á framfæri varðandi þetta,“ segir Þór.
Telur hann að framkvæmdirnar muni koma til með að hafa neikvæð áhrif á íbúa á Seltjarnarnesi.
„Við höfum miklar áhyggjur af þessu og viljum gjarnan fá einhverjar skýringar á þessu og hvort það sé möguleiki á að við séum höfð með í ráðum þegar svona er tilkynnt. Við þurfum að sækja vinnu og þjónustu í höfuðborginni eins og aðrir og komast heim líka, þannig að við þurfum að fá að vera við borðið.“
Spurður hvort bæjarstjórnin muni setja sig í samband við Reykjavíkurborg svarar Þór játandi.
„Það er á dagskrá að koma okkar skoðunum á framfæri við borgina og komast að borðinu og fá að vera með í ráðum með einhverjum hætti. Það þarf að hugsa þetta heildstætt og borgin verður líka að hugsa um sína nánustu nágranna. Við þurfum að vinna þetta allt í sátt og samlyndi.“
Seltirningar hafa áður mótmælt framkvæmdum Reykjavíkurborgar án samráðs við bæinn.