Andrés Magnússon
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra halda áleiðis til Úkraínu í dag til fundar við þarlend stjórnvöld.
Ráðherrarnir fljúga til Póllands í dag, en gert er ráð fyrir að þær stöllur haldi með næturlest yfir til Úkraínu og eiginleg heimsókn þar í landi hefjist á morgun.
Mikil leynd hefur hvílt yfir þessum áformum, m.a. af öryggisástæðum, en með í för verða nokkrir aðstoðarmenn ráðherranna og fréttamenn Ríkisútvarpsins.
Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra fór til Úkraínu í lok nóvember síðastliðins ásamt utanríkisráðherrum frá öðrum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum og átti þá m.a. fund með Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu.
Íslendingar hafa lagt sitt af mörkum til aðstoðar Úkraínu efttir innrás Rússa, efnahagslega með fjárstuðningi, með mannúðaraðstoð, stuðningi við varnir og ekki síst pólitískt á alþjóðavettvangi. Gert er ráð fyrir að frekari stuðningur við Úkraínu verði ræddur og kynntur í ferðinni.
Þá er tilefni heimsóknarinnar einnig formennska Íslands í Evrópuráðinu og leiðtogafundur ráðsins sem fer fram í Reykjavík í maí, en Úkraína mun hafa þýðingarmikið hlutverk á leiðtogafundinum.