Sýnum einlægan stuðning og samstöðu okkar

Katrín Jakobsdóttir og Volodimír Selenskí funduðu í dag.
Katrín Jakobsdóttir og Volodimír Selenskí funduðu í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Þessi heimsókn til borgarinnar skilur eftir sig mikla og djúpa virðingu fyrir því hugrekki sem úkraínska þjóðin hefur sýnt frá innrás Rússa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Þórdís og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra funduðu með forseta Úkraínu, Volodimír Selenskí, í Kænugarði í dag. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að á fundinum hafi þau rætt stöðuna í Úkraínu, stuðning Íslands við Úkraínu og væntanlegan leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík í maí. Þar verða málefni Úkraínu í brennidepli. Óljóst er þó hvort Selenskí kemur hingað til lands af þessu tilefni. Forsætisráðherra greindi frá því að stuðningur Íslands til Úkraínu muni nema 2,25 milljörðum króna árið 2023, en í fyrra nam stuðningur Íslands 2,2 milljörðum króna.

Katrín og Þórdís Kolbrún með Olhu Stefanishyna, varaforsætisráðherra Úkraínu.
Katrín og Þórdís Kolbrún með Olhu Stefanishyna, varaforsætisráðherra Úkraínu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Á vef Stjórnarráðsins er rakið að forsætisráðherra og utanríkisráðherra komu til Úkraínu snemma í morgun en heimsóknin er í kjölfar boðs Selenskís til forsætisráðherra. „Markmið ferðarinnar er bæði að sýna úkraínsku þjóðinni stuðning og hins vegar að undirbúa leiðtogafundinn þar sem verður fjallað um mögulega tjónaskrá Evrópuráðsins vegna stríðsins og leiðir til að kalla rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar,“ segir þar auk þess sem sagt er frá því að ráðherrarnir tveir hafi skoðað ummerki í Borodianka og Bucha þar sem stríðsglæpir hafa verið framdir. Þá lagði forsætisráðherra blómsveig að minningarvegg í Kænugarði. „Að sjá með eigin augum grimmdina sem samfélagið hefur mátt þola er átakanlegt en á sama tíma er óbilandi sigurtrú og bjartsýni þjóðarinnar einstaklega uppörvandi. Ísland getur stutt fólkið hér bæði með framgöngu sinni á alþjóðlegum vettvangi en einnig með áframhaldandi efnahagslegum stuðningi við Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún

Ráðherrarnir áttu þar að auki fund með forsætisráðherra Úkraínu, Denys Shmyhal, varaforsætisráðherra landsins, Olhu Stefanishyna, utanríkisráðherranum, Dmytro Kuleba, og orkumálaráðherra landsins, German Galuschenko.

„Formennsku Íslands í Evrópuráðinu ber upp á óvenjulegum tíma í Evrópu þar sem stríð geisar en Evrópuráðið er sú grundvallarstofnun álfunnar sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, lýðræði og mannréttindum. Við nálgumst þetta verkefni af auðmýkt enda er það stórt og mikilvægt. Heimsóknin til Kænugarðs er hluti af okkar skyldum sem formennskuríkis en á sama tíma viljum við sýna úkraínsku þjóðinni einlægan stuðning og samstöðu okkar,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur á vef Stjórnarráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert