Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, hefur óskað eftir því að staða leikskólamála verði sett á dagskrá borgarráðs á fimmtudag. Mótmæli hafa verið boðuð fyrir fundinn vegna slæmrar stöðu í leikskólamálum borgarinnar, en fyrir liggur að færri börn verða innrituð næsta haust en gert var ráð fyrir, meðal annars vegna framkvæmda og endurbóta á leikskólahúsnæði.
„Það þarf að veita skýr svör við því, hvaða skref hafa verið stigin frá því aðgerðir voru samþykktar síðastliðið haust, hvað hefur áunnist og hvar helstu áskoranir liggja. Því miður er útlit fyrir að lítið hafi gerst og að staðan hafi síður en svo batnað,“ segir Hildur við mbl.is.
Hún bendir á að fyrir rúmu ári hafi meðalaldur barna við inngöngu á leikskóla verið 19 mánuðir, en meirihlutaflokkarnir hafi brugðist við þeim tíðindum rétt fyrir kosningar með því að segja að byrjað yrði að bjóða börnum niður í 12 mánaða leikskólapláss um haustið.
„Þau loforð hafa ekki staðist og eftir sitja foreldrar í algjöru úrræðaleysi. Nú er meðalaldur barna við inngöngu á borgarrekna leikskóla um 21 mánuður, svo það hefur ekki nokkur árangur náðst í leikskólamálum síðastliðið ár.“
Hildur segir Sjálfstæðisflokkinn hafa lagt fram fjölbreyttar lausnir við vandanum. Vissulega þurfi að efla leikskólastigið, styðja við faglegt starf og fjölga leikskólaplássum. En einnig þurfi að efla dagforeldrakerfið þar sem stöðug fækkun sé í stéttinni. Þá hafi verið lagt til að foreldrar barna sem ekki fái skólavist fái heimgreiðslur og aukinn stuðningur við einkarekna leikskóla.
„Það verður að nálgast þetta viðfangsefni víðtækt, enda fjölskyldur ólíkar og þarfirnar margvíslegar. Það er mikilvægt að fjölskyldur eigi val um ólík úrræði í kjölfar fæðingarorlofs. Þetta er eitt mikilvægasta jafnréttismálið sem borgin fæst við - Samfylking hefur stýrt þessum málaflokki í á annan áratug með sífellt verri árangri. Nú þarf að taka í hornin á þessum vanda.“