Styrkur svifryks fór yfir heilsufarsmörk

Svifryksmengun er jafnan með mesta móti í mars og apríl.
Svifryksmengun er jafnan með mesta móti í mars og apríl. mbl.is/Árni Sæberg

Styrkur svifryks fór yfir heilsufarsmörk á tveimur mælistöðvum í Reykjavík í morgun og mældist einnig nokkuð hátt á tveimur öðrum. Við slíkar aðstæður er einstaklingum með alvarlega hjarta- og/eða lungnasjúkdóma ráðlagt að forðast að vera úti, auk þess sem almennt ætti að forðast ætti erfiðisvinnu úti eða stunda líkamsrækt.

Í morgun í kringum morgunumferðina var styrkur svifryks (PM10) hár bæði við mælistöðina við Grensásveg og við leikskólann Lund. Klukkan 10 var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 160 míkrógrömm á rúmmetra, á sama tíma var styrkurinn 52,2 míkrógrömm á rúmmetra við leikskólann Lund, en hafði hæst farið í 119,8 míkrógrömm klukkustund áður. Við Vesturbæjarlaug mældist styrkurinn 80,8 míkrógrömm á rúmmetra klukkan 10.

Styrkur er tekin að falla aftur en þar sem aðeins er hægur vindur, götur þurrar og ekki líkur á úrkomu í dag er líklegt er að styrkur svifryks fari aftur hækkandi í tengslum við álagstíma í umferðinni, að því er segir í tilkynningu frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að styrkur svifryks verði áfram hár. 

„Almenningur er því hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, s.s. geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Skorað er á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu sé þess kostur og draga úr akstri ef hægt er. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna,“ segir í tilkynningunni.

Hægt er að fylgjast með loftgæðum á höfuðborgarsvæðinu á loftgaedi.is

Loftgæðamælir á Grensásvegi.
Loftgæðamælir á Grensásvegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert