Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands birti í dag yfirlitskort yfir hafísjaðar og lagnaðar- og fjarðaís norðan við landið. Varað er við því að hætta sér út á ótraustan ísinn.
Kortið er unnið út frá túlkun á ratsjármyndum úr gervitungli. Vesturhluti íssins var myndaður snemma í dag en austurhlutinn að morgni gærdags.
Lagnaðarísinn er landfastur og færist ekki mikið, en fjarðaísinn fylgir straumum og sjávarföllum. Í báðum tilvikum getur vindur myndað öldur sem brýtur ísinn upp á stuttum tíma og því er varasamt að hætta sér út á hann.
Venjulega telst hafís ekki ótraustur en samkvæmt rannsóknarstofunni ber fólki að hafa varann á í aðstæðum sem þessum.
Í Facebook-færslu rannsóknarstofunnar kemur fram að börnum á Akureyri, á fyrri hluta 20 aldar, hafi verið sagt „að passa sig ef vindur snerist til austlægrar áttar á Pollinum: þá myndi ís, sem annars virtist traustur, brotna upp hratt og mikil hætta væri á ferð.“