Umbætur gerðar á gatnamótum

Um Sæbraut/Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg er þung umferð alla daga.
Um Sæbraut/Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg er þung umferð alla daga. mbl.is/sisi

Reykjavíkurborg er á lokametrunum með verðfyrirspurn vegna bráðabirðaaðgerða við gatnamót Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Þetta er svar borgarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Tilkynnt var í febrúar sl. að til stæði að bæta umferðaröryggi á þessum gatnamótum í Vogahverfi.

Við gatnamótin hafa orðið nokkur slys og óhöpp á undanförnum árum. Slysasaga gatnamótanna á árunum 2012 til 2021 leiðir í ljós að skráðir voru 115 árekstrar á þessum tíu árum. Þar af voru 11 slys með litlum meiðslum og þrjú alvarleg slys. Nítján einstaklingar hlutu lítil meiðsli og þrír alvarleg meiðsli.

Nýtt hverfi við Elliðaárvoginn, Vogabyggð, hefur byggst upp á allra síðustu árum. Gangandi vegfarendum, sem leið eiga um gatnamótin, hefur því fjölgað mikið. Á það ekki síst við um skólabörn.

Götulýsing endurnýjuð

Bráðabirgðaaðgerðirnar felast í því að breikka stíginn sunnan við Kleppsmýrarveg að Sæbraut og setja gangbrautarlýsingu á öll svokölluð framhjáhlaup (beygjur) gatnamótanna við Sæbraut. Verið er að endurnýja götulýsingu á Kleppsmýrarvegi og Skeiðarvogi og lýkur útskiptingu á lömpum fljótlega.

Í svari Reykjavíkurborgar segir einnig að í sumar verði farið í varanlegri aðgerðir. Settar verði upphækkanir og gangbrautarmerkingar í framhjáhlaupin og felld niður önnur af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þá er á dagskránni að laga miðeyjar Sæbrautar.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum 1. febrúar sl. að ráðast í þessar aðgerðir. Undirbúningur hefur farið fram í samvinnu við Vegagerðina sem er veghaldari á Sæbraut.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu á fimmtudaginn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka