Ljóst er að framkvæmdir við húsnæði að minnsta kosti fimm leikskóla Reykjavíkurborgar verða umfangsmeiri og tímafrekari en gert var ráð fyrir í fyrstu. Er verið að horfa fram á að viðhald og endurbætur muni jafnvel standa yfir í eitt og hálft ár til viðbótar á einhverjum leikskólum. Annars staðar er óvissa með verklok
Fyrir liggur að framkvæmdirnar munu hafa þau áhrif að færri börn verða innrituð á leikskóla Reykjavíkurborgar í haust en gert var ráð fyrir, þrátt fyrir að 588 ný pláss hafi orðið til í borginni á síðasta ári, á sex nýjum leikskólum. Stór hluti þessara nýju plássa er nú nýttur fyrir börn sem nú þegar eru með pláss en hefur þurft að færa til vegna framkvæmda.
Framkvæmdir standa yfir á sex leikskólum, en sjöundi leikskólinn er einnig undir þar sem börn af Grandaborg hafa verið flutt tímabundið yfir á Gullborg á meðan framkvæmdir standa yfir á fyrrnefnda leikskólanum.
Fyrir liggur að framkvæmdir á Grandaborg eru flóknar, en eftir að þær hófust hafa þær undið upp á sig og ljóst er að margt þarf að koma til svo húsnæðið verði gott til frambúðar. Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is um stöðu á framkvæmdum við leikskólahúsnæði borgarinnar. Tímaáætlun gerir ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið haustið 2024. Þá verða komin tvö ár frá því leikskólanum var lokað vegna skólpmengunar.
Leikskólarnir Garðaborg og Hálsaskógur þarfnast báðir allsherjar endurnýjunar. Í ljós hefur komið að þörf er á enn viðameiri framkvæmdum en lagt var upp með. Nokkrir verkþættir eru leyfisskyldir sem gerir að verkum að þeir taka lengri tíma en ef hægt væri að ráðast í þá strax.
Vegna óvissuþátta liggur ekki fyrir nákvæm verkáætlun en verið er að leita leiða til að flýta ferlinu eins og unnt er. Ekki er hægt að gefa upp áætluð verklok í augnablikinu, að segir í svari borgarinnar.
Þá standa yfir framkvæmdir á stærra húsnæði leikskólans Hlíðar, en verkáætlun gerir ráð fyrir að þær standi yfir fram á næsta ár. Í svari borgarinnar er þó tekið fram að verið sé að leita leiða til að flýta framkvæmdum. Hvort það gengur eftir liggur að öllum líkindum fyrir eftir tvær til fjórar vikur.
Framkvæmdir hefjast von bráðar við húsnæði Laugasólar, en leikskólinn er efstur á lista þegar kemur að viðhaldi og endurbótum. Í svarinu segir að allt kapp verði lagt á að finna húsnæði sem hentar leikskólabörnum svo hægt sé að tæma húsin. Framkvæmdartími er óráðinn en gert er ráð fyrir að hann verði að lágmarki eitt ár í báðum húsunum. Engin ný börn verða tekin inn á Laugasól í haust vegna framkvæmdanna.
Einnig standa yfir framkvæmdir við leikskólann Sunnuás, en honum var lokað síðasta sumar og starfsemin flutt tímabundið í gamla Morgunblaðshúsið í Kringlunni. Til stendur þó að reisa svokallaðar Ævintýraborgir á lóð Sunnás á meðan framkvæmdir standa yfir, en foreldrar hafa fengið þau svör að þær verði tilbúnar næsta haust.
Staðan á framkvæmdum við leikskólahúsnæðið er hins vegar er óljós, en mbl.is hefur óskað eftir frekari upplýsingum um þær.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við mbl.is á föstudag að blandaðar ástæður væru fyrir fyrir því að ráðast þyrfti í viðhald og endurbætur á svo mörgum leikskólum á sama tíma. Eina skýringuna taldi hann þó vera að borgin tæki þessi mál fastari tökum en aðrir, enda hefði verið ráðist í heildarúttekt á öllu leikskólahúsnæði borgarinnar.