Rétt fyrir klukkan hálf ellefu í gærkvöldi varð umferðaróhapp á Suðurlandsvegi við Heiðmörk þegar jeppabifreið missti framhjólbarða undan bifreiðinni.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að hjólbarðinn hafi hafnað á bifreið sem kom á móti úr gagnstæðri átt.
Bifreiðin varð fyrir miklum skemmdum og þurfti að fjarlægja hana með dráttarbifreið af vettvangi. Engin slys urðu á fólki.
Þá varð umferðarslys í Vesturbænum rétt eftir klukkan eitt í nótt þar sem bifreið var ekið á tvær kyrrstæðar bifreiðar sem voru mannlausar.
Ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á bráðamóttöku með sjúkrabifreið til aðhlynningar.