Enn sýna Rússar Íslandi lítilsvirðingu

Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, segir sendiherra Rússa fá …
Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, segir sendiherra Rússa fá óáreittur að rægja Íslendinga. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Sendiráð Rússlands á Íslandi sýnir enn á ný íslenskum stjórnvöldum lítilsvirðingu og ræðst m.a. á utanríkisráðherra. Hótar sendiráðið jafnframt breyttum viðhorfum við mat á afstöðu sinni í samskiptum við íslenska aðila. 

Kemur þetta fram í skrifum Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, á vefsíðu sinni.

Björn hefur áður stungið niður penna og bent á móðgandi orð sendiráðs Rússlands á Íslandi og sendiherra, Mikhaíl Noskov. Fram til þessa hefur hvorki heyrst hóst né stuna frá íslenskum stjórnvöldum þótt sendiherra Rússlands fari ítrekað móðgandi orðum um utanríkisráðherra og rægi Íslendinga og íslenskt samfélag í rússneskum fjölmiðlum.

Tímabært sé að reka sendiherrann úr landi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti í vikunni ráðstefnu um þjóðaröryggismál. Tók ráðherrann sér í munn orð sem ómuðu meðal Úkraínumanna sem neituðu að gefast upp fyrir innrásarliði Moskvuvaldsins. Sögðu þeir m.a.: „Rússneski floti, þið megið fokka ykkur“. Á þessum orðum baðst ráðherrann afsökunar, enda ekki ráðherra sæmandi þó boðskapur væri mikilvægur.

Vegna þessara orða sendi rússneska sendiráðið í Reykjavík frá sér yfirlýsingu 23. mars og veittist að utanríkisráðherra fyrir „dónalegt orðbragð“ (e. dirty language) og „vanhæfni“ (e. inability) íslensku utanríkisþjónustunnar til að færa sannfærandi rök fyrir afstöðu sinni og til að skilja hvað sé að gerast. Hótar sendiráðið að taka mið af þessum „stefnumarkandi“ viðhorfum við mat á afstöðu sinni í samskiptum við íslenska aðila,“ skrifar Björn.

Þá undrast hann mjög langlundargeð utanríkisráðherra og embættismanna ráðuneytisins. Rússar muni halda áfram að traðka á málfrelsi Íslendinga og ganga enn lengra sé ekkert gert.

Því sé komið að því að senda Mikhaíl Noskov sendiherra aftur heim til Moskvu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert