Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja, er enn með stöðu sakbornings í máli vegna meintra brota í Namibíu, en hún áfrýjaði úrskurði héraðsdóms í málinu fyrr í mánuðinum. Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms og hafnaði kröfu Örnu. Þett staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en úrskurðað var í málinu fyrr í dag.
Arna hefur haft réttarstöðu sakbornings í tæp þrjú ár, en hún byggði kröfu sína á tímalengd málsins. Arna kvaðst ekki hafa heyrt frá héraðssaksóknara í 17 mánuði, þegar hún lagði fram kröfuna í janúar, sem færi í bága við sakamálalög.
Einnig byggði Arna kröfu sína á því að rannsókn málsins hafi verið stýrt af Finni Þór Vilhjálmssyni, en hann er bróðir Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á Heimildinni.
Lögmaður Örnu, Halldór Brynjar Halldórsson, nefndi meðal annars að Finnur Þór væri vanhæfur vegna vensla við Inga Frey, en hann skrifað mikið um málið og var einn af þeim sem hafði umsjón með samantekt gagna sem afhent voru héraðssaksóknara.
Sama dag og niðurstaða héraðsdóms var birt var greint frá því að Ingi Freyr hefði stöðu sakbornings í rannsókn á máli þar sem Arna kemur við sögu.