„Ég svaf eiginlega ekkert nóttina á eftir. Ég sá náttúrlega snjóflóðið koma að mér inn um stofugluggann og þetta endurtekur sig í huganum,“ segir Anna Björg Rúnarsdóttir en hún og maður hennar Kristófer Snær Egilsson, íbúar í Neskaupstað, fengu snjóflóð inn um gluggann á mánudagsmorgun.
Anna Björg var með þriggja mánaða hvítvoðung í fanginu, dóttur, þegar ósköpin dundu yfir en þau eiga einnig sjö ára dóttur og tíu ára son sem lentu í flóðinu. Horfði hún á snjóflóðið nálgast inn um stofugluggann um klukkan sjö um morguninn en á sama tíma svaf Kristófer með sjö ára dóttur þeirra við hlið sér í öðru herbergi. „Ég gargaði,“ segir Anna Björg. „Ég fór beint í að grafa dóttur mína upp,“ segir Kristófer.
Því næst reyndu þau að koma syni sínum úr herberginu sem hann var í. Hurðin reyndist föst því snjórinn skorðaði hana af innan frá. „Það var í raun lán í óláni að bíll nágrannans [hafði verið lagt] annars staðar en hann er vanur að [vera]. Bíllinn liggur upp við húsið okkar og við gluggann þar sem strákurinn sefur. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi varið gluggann hans þannig að minni snjór fór inn um hann en hefði getað,“ segir Kristófer.
Hvítvoðungur þeirra grætur þegar Kristófer segir frá. Er það rík áminning í huga þeirra um það að ef þær Anna og „sú litla“ hefðu ekki verið vaknaðar hefði getað farið enn verr.
„Þessi sjö ára var alveg á kafi og það varð okkur til happs að þegar rúðan springur þá settist ég upp. Ef ég hefði ekki gert það hefði ég ekki verið með lausar hendur til að grafa hana upp. Svo þegar ég ætlaði að losa fæturna þá fann ég að það var mjög erfitt og ég veit ekki hvort ég hefði getað losað mig ef ég hefði verið algrafinn. Það þéttist allt um leið,“ segir Kristófer.
Kristófer er með um 40 skurði á líkamanum eftir gler sem dreifðist í allar áttir þegar allt sprakk. „Maður er rosalega ánægður að litla vaknaði svona snemma,“ segir Kristófer. „Ég hafði séð fyrir mér að maður myndi verða við stærsta steypta vegginn ef snjóflóð kæmi og við vorum þar, við litla,“ segir Anna.
Að sögn Önnu hafa eldri börnin tvö ekki mikið velt sér upp úr þessu frá því snjóflóðið féll. „Maður áttaði sig engan veginn á því að snjóflóð hefði fallið þegar þetta gerðist. Það vildi svo til að björgunarsveitarmaður var í næsta húsi og hann kom kannski fimm mínútum seinna. Hann fór strax inn inn um gluggann og við stelpan náum að klæða okkur. Svo þegar við erum komin í föt þá býðst björgunarsveitarmaðurinn til að fara með sjö ára stelpuna á sjúkrahúsið. Ég leyfi það náttúrlega þar sem hann var mun betur klæddur en ég,“ segir Kristófer og hlær við.
Á sama tíma var Anna inni í stofu með „þá litlu.“ „Ég stóð þarna bara og hefði verið þarna miklu lengur ef björgunarsveitarmaðurinn hefði ekki komið. Ég þorði ekkert að fara út því ég vissi ekki hvernig staðan var. Hvort ég gæti farið með þá litlu og strákinn á sjúkrahúsið eða hvort allt væri í snjó. Þá kemur hann aftur og tekur þennan tíu ára með sér,“ segir Anna.
Kristófer segir að hann hafi verið „aðeins út út úr því“ og hafið gang að spítalanum, berfættur og blóðugur eftir alla skurðina. „Skórnir voru undir snjó en við gátum gripið teppi og eitthvað,“ segir Anna.
Kristófer segir að hann hafi hugsað mikið um hvað hefði getað gerst. „Ég hefði getað verið á næturvakt inni í bræðslu. Það féll flóð inn frá til að byrja með og það hefði lokað veginum. Þá hefði stelpan verið ein inni í herbergi og ekki með mér,“ segir Kristófer.
„Það er enn titringur í mér og maður hefur kannski tárast, en ekki fyrir framan börnin, en auðvitað vorum við heppin,“ segir Anna.