„Hreina aukningin er til frjálsra fjölmiðla og núna erum við að vinna að fjölmiðlastefnu, ein stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í samtímanum er breytingin á tekjuöflun fjölmiðla,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, spurð út í nýkynnta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og boðað framlag til fjölmiðla.
Segir í áætluninni að ný og aukin verkefni á sviði menningarmála felist að stærstum hluta í varanlegu 400 milljóna króna framlagi til stuðnings einkareknum fjölmiðlum og árlegu 100 milljóna króna framlagi til Barnamenningarsjóðs.
Í sérstökum kafla um fjölmiðlun síðar skýrslunni er svo vikið að útgjaldaramma málefnasviðsins og þar gerð grein fyrir því að helstu breytingar til hækkunar útgjalda megi meðal annars rekja til 400 milljóna króna hækkunar vegna aukins stuðnings við fjölmiðla til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.
Síðarnefndu 400 milljónirnar eru að sögn ráðherra viðbót við þær sem fyrir eru. Segir Lilja að bæta þurfi rekstrarumhverfi fjölmiðla og nefnir sem dæmi að ná þurfi utan um streymisveitur, það er að segja beina tekjum af þeim að einhverju leyti til fjölmiðla. Tekur hún þó fram að þar sé um sjálfstætt mál að ræða sem ekki tengist þeim styrkjum sem hér eru umræðuefni.
„Kallað er á lausn í þessu,“ heldur hún áfram og á við rekstrarumhverfið. „Við settum þetta stuðningskerfi á í fyrra og nú erum við að vinna að því að setja á laggirnar kerfi sem býður upp á stuðning gegnum skattkerfið. Markmiðið er að hvetja til aukinna áskrifta að fjölmiðlum,“ útskýrir ráðherra.
„Þarna gerum við ráð fyrir að útgjaldaramminn sé að aukast eins og sést í þessari fjármálaáætlun til 2028 og við ætlum okkur að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla. Þetta er mjög knýjandi í nútímasamfélagi til að stuðla að heilbrigðri umræðu um lýðræði og pólitíska þátttöku í samfélaginu. Þar gegna fjölmiðlar mjög stóru hlutverki og þessi nýja fjölmiðlastefna, sem nær til 2030, verður kynnt síðar á árinu og þar eru stuðningskerfið og þessi skattaívilnunarleið mjög stórir þættir,“ segir Lilja.
„Svo er stefnt að því að draga úr umsvifum RÚV á samkeppnismarkaði, við erum ekki farin að útfæra það nánar en það yrði þá væntanlega á auglýsingamarkaði. Núna er verið að leggja þessar breiðu línur en við eigum útfærsluna eftir og erum í samtali um það,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, að lokum um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og stuðning við þá á tímabili nýsettrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.