Áhyggjur af yfirvofandi gjaldþroti Torgs

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, og Anna Kristín Kristjánsdóttir, formaður …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, og Anna Kristín Kristjánsdóttir, formaður SÍA. Samsett mynd

Stjórnir Blaðamannafélags Íslands (BÍ) og Samtaka íslenskra auglýsingastofa (SÍA) lýsa yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar stöðu á markaði sem hefur myndast eftir að tilkynnt var að Fréttablaðið heyri sögunni til og útgáfufélag blaðsins, Torg, stefni í gjaldþrot.

Stjórn BÍ lýsir áhyggjum yfir því að stjórnvöld hafi brugðist þegar kemur að því að standa vörð um lýðræðið með aðgerðum til stuðnings einkarekinna miðla.

„Yfirvofandi gjaldþrot útgáfufélags Fréttablaðsins er ekki einungis áfall fyrir öll þau sem misstu vinnuna í dag, heldur fyrir fjölmiðlamarkaðinn í heild sinni og tjón fyrir samfélagið allt,“ segir í tilkynningu BÍ.

„Gjaldþrot Torgs er staðfesting á þeim algjöra markaðsbresti sem orðið hefur með tilkomu tæknirisa á borð við Google og Facebook sem hirða nú helming alls fjármagns úr íslenskum auglýsingamarkaði.“

Hætti að nota RÚV sem afsökun

Stjórn BÍ segir að stjórnvöld afvegaleiði sífellt umræðuna með því að gera það að skilyrði að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði, án þess að því fylgi raunverulegur ásetningur.

„Stjórn Blaðamannafélagsins krefst þess að stjórnvöld hætti að nota RÚV sem afsökun fyrir því að styðja ekki betur við einkarekna miðla og varar við því að ef ekkert verður að gert er raunveruleg hætta á því að fleiri miðlar fari á sama veg og Fréttablaðið, með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið,“ segir í tilkynningunni.

Stórt skarð hoggið

Stjórn SÍA (Samtaka íslenskra auglýsingastofa) hefur einnig sent út yfirlýsingu vegna málsins og lýsir yfir áhyggjum stöðunni á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Með brotthvarfi Fréttablaðsins og Hringbrautar hafi verið hoggið stórt skarð í íslenska fjölmiðlaflóru sem hafi víðtæk áhrif.

„Nefna má takmarkaðra aðgengi fólks að upplýsingum, færri leiðir til upplýsingagjafar og -miðlunar og möguleg áhrif á lýðræðislega umræðu og íslenska tungu.

Stjórn SÍA hvetur ráðamenn til að flýta vinnu sinni um framtíðarskipan fjölmiðlamarkaðarins og skapa þannig rekstrarumhverfi að stórir og smáir fjölmiðlar fái að vaxa og dafna um ókomna tíð - íslensku samfélagi til heilla,“ segir í tilkynningu SÍA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert