Frétt þessi er aprílgabb mbl.is og Krónunnar
„Krónan elskar hollar og ferskar matvörur og því er það okkur sönn ánægja að kynna til sögunnar fyrsta grænmetispáskaeggið,“ segir Fanney Bjarnadóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Krónunni, en verslun Krónunnar í Lindum byrjar í dag með nýjung á páskaeggjamarkaðnum. Þar verða til sölu páskaegg sem innihalda niðurskorið grænmæti.
„Þetta er nýjung sem okkur þótti mikilvægt að koma á markað til að bjóða börnum, sem og fullorðnum, hollari valmöguleika yfir páskahátíðina. Við teljum einnig að þetta gæti verið frábær möguleiki fyrir þá sem eiga erfitt með að borða grænmeti og gætu þurft aukahvatningu til að prufa sig áfram,“ bætir Fanney við. Skorar hún á alla að prófa en upplagið er takmarkað og því gildir hið fornkveðna: fyrstur kemur, fyrstur fær.
Hún segir Krónuna hafa fengið margar fyrirspurnir frá foreldrum í gegnum tíðina um aukið vöruúrval i þessum flokki. Í páskaegginu má m.a. finna brokkólí, paprikusneiðar, hnúðkálsbita og barnagulrætur. Notast er við ferskt gæðahráefni og er takmarkað magn í boði, að sögn Fanneyjar.