Veðurstofa Íslands hefur safnað saman gögnum varðandi ofanflóðahættu á svæðinu í dag og er nú unnið að því að rýna í þau. Niðurstaða þeirrar vinnu verður kynnt um leið og hún liggur fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglustjórans á Austurlandi.
Þangað til verða rýmingar óbreyttar.
Greint var frá því fyrr í dag að Veðurstofan hefði ákveðið að aflétta rýmingu á reitum 4 og 16 í Neskaupstað frá klukkan 16 í dag. Það voru síðustu rýmingarreitirnir í bænum.
Eins og áður hefur verið greint frá hafa þó nokkur snjóflóð fallið síðustu daga á Austurlandi og hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu þar. Hættustig er í gildi í Neskaupstað, á Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði.