Afturvirkar skerðingar „eins og að fá högg undir beltisstað“

Gísli B. Árnason, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður hjá RLH.
Gísli B. Árnason, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður hjá RLH.

Lögreglumaðurinn fyrrverandi, Gísli B. Árnason, sem fór á eftirlaun í lok síðasta árs, segir að breyting á lögum um A-deild LSR frá árinu 2017 hafi afturvirkt skert lífeyrisréttindi hans og fleiri sjóðfélaga verulega.

Þessu komst hann að þegar hann fór að kynna sér lífeyrisréttindi sín stuttu áður en hann lét af störfum. Hann segir að fjöldi annarra sjóðsfélaga muni komast að svipaðri niðurstöðu á næstu árum, en lögreglumenn komast á lífeyrisaldur 65 ára en meðal flestra annarra stétta er miðað við að taka lífeyris hefjist við 67-70 ára aldur.

Gísli fer yfir málið í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, en þar segir hann meðal annars að hann hafi greitt í A- og B-sjóð LSR í 35 ár, þar af í A-sjóð í 25 ár, eða frá árinu 1997.

Varð fyrir hálfgerðu áfalli

Hann segist hafa orðið fyrir hálfgerðu áfalli þegar hann hafi farið að skoða málið nánar og áttað sig á að ný lög um A-deildina tóku gildi 1. júní árið 2017. Var það „eins og að fá högg undir beltisstað fyrir mig að uppgötva að þessi lög munu skerða áratugagömul lífeyrisréttindi mín afturvirkt, lög sem voru sett örstuttu fyrir starfslok mín,“ segir í greininni.

Vísar Gísli til þess að í lögunum segi að komi til þess, í ljósi tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar að rétt sé að skerða eða auka réttindi skulu slíkar breytingar ekki taka til þeirra sem eigi réttindi í A-deild og hafi náð 60 ára aldri fyrir gildistöku laganna. Þá skuli ekki nýta höfuðstól varasjóðs í þessu skyni heldur árlega gera upp fjárhagsleg áhrif með samningi A-deildar við ríkissjóð.

Bendir Gísli á að þrátt fyrir þetta orðalag sé að finna skjal á vef Stjórnarráðsins varðandi lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna sem stangist algerlega á við þessi lög. Þar komi fram að lögin hafi einungis áhrif á þá sem koma nýir inn í A-deild sjóðsins eftir gildistöku laganna.

Á meðal þeirra fyrstu sem lenda í þessu

Segir Gísli að við nánari skoðun hafi komið í ljós að upphaf þessarar lagasetningar megi rekja til stöðugleikasáttmálans svokallaða (SALEK), en þar kom fram að ríki og sveitarfélög myndu í sameiningu taka lífeyrismál til sérstakrar umfjöllunar. Skipaður var vinnuhópur sem taldi nauðsynlegt að skapa sjálfbært og samræmt lífeyriskerfi til framtíðar. Voru fyrrnefnd lög, sem eru nr. 1/1997, sett í framhaldinu.

Þar sem lögreglumenn fara á lífeyrisaldur 65 ára segir Gísli að hann sé meðal þeirra fyrstu sem lendi í þessu, en að fjöldi annarra ríkisstarfsmanna muni átta sig á þessu á næstu 2-5 árum. Segist hann hafa leitað lögfræðilegs álits um hvort það stæðist að áratugagömul lífeyrisréttindi væru skert og að niðurstaða lögfræðingsins væri að svo væri ekki. Þá hafi hann jafnframt fengið staðfestingu LSR á því að fljótlega yrði farið í að skerða lífeyrisréttindi í A-deild samkvæmt lögunum og að tilkynning þess efnis verði send út fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert