Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram frumvarp um að stimpilgjöld af kaupum einstaklings á íbúðarhúsnæði verði afnuminn. Þetta er í áttunda sinn sem frumvarpið er lagt fram.
Að baki frumvarpsins standa Vilhjálmur Árnason, Diljá Mist Einarsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Ásmundur Friðriksson.
Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup.
Í greinargerð þingmannanna segir að stimpilgjöld séu orðin úrelt skattheimta sem hefur takmörkuð áhrif á ríkissjóð. Markmið frumvarpsins sé að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á húsnæðismarkaði.
Mikil þörf sé á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði.
Einnig segja þau að sýnt þyki að stimpilgjöld hækki viðskiptakostnað á fasteignamarkamði, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda.
Þá bendi rannsóknir til þess að stimpilgjald hafi skaðlegri áhrif á velferð en aðrar tegundir skattheimtu.