Réttindalausir dyraverðir voru við störf á sex stöðum í miðbæ Reykjavíkur þegar eftirlit var haft með skemmtistöðum frá klukkan 22 í gærkvöldi til klukkan 1 í nótt.
Dyravörðunum var gert að hætta störfum og vaktstjórum gert að útvega dyraverði í stað þeirra með réttindi.
Málin eru rannsökuð sem brot á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Staðirnir og ábyrgðarmenn þeirra eiga yfir höfði sér sekt vegna þessa, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Á ellefta tímanum í gærkvöldi var óskað aðstoðar vegna líkamsárásar og eignaspjalla í Vesturbænum í Reykjavík.
Tveir voru kærðir fyrir brot á lögreglusamþykkt um þrjúleytið í nótt fyrir að kasta af sér þvagi á almannafæri í miðbæ Reykjavíkur.
Ökumaður var á áttunda tímanum sektaður fyrir að aka með of marga farþega og börn sem voru ekki í viðeigandi öryggisbúnaði. Málið verður tilkynnt til barnaverndarnefndar.
Ökumaður var sektaður fyrir of hraðan akstur í Árbænum um hálftólfleytið í gærkvöldi. Hann ók á 111 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 80 km/klst.
Þá voru þrír ökumenn handteknir, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og einn fyrir að aka bifreið sviptur ökuréttindum.