Aðild að þjóðkirkjunni hefur aldrei verið sett sem skilyrði fyrir því að börn fái að skírast eða fermast í Grafarvogskirkju.
Þetta segja þau Arna Ýrr Sigurðardóttir, Guðrún Karls Helgudóttir og Sigurður Grétar Helgason, prestar í Grafarvogssókn, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Fram kemur að prestar og sóknarnefnd safnaðarins hafi komið af fjöllum vegna greinar Sigurvins Lárusar Jónssonar Fríkirkjuprests í Morgunblaðinu 5. apríl um að barni hafi verið gert að skrá sig úr Fríkirkjunni og í þjóðkirkjuna til að fá að fermast í Grafarvogssókn.
„Þá lætur hann að því liggja með titli greinarinnar að hægt sé að „stela“ fermingarbörnum eins og þau séu einhvers konar markaðsvara eða skiptimynt trúfélaga. Þessi hugsunarháttur gæti ekki verið fjær okkur,“ skrifa prestarnir í greininni í morgun.
Þar er jafnframt vitnað í texta í bréfi sem foreldrar fermingarbarna í Grafarvogskirkju fengu í tengslum við ferð í Vatnaskóg, þar sem þjóðkirkjuaðild er til umræðu.
„Verðið fyrir ferðalagið er 8.300 kr. Fyrir þau sem tilheyra þjóðkirkjunni. Fyrir þau sem eru ekki meðlimir kostar ferðin 17.300, þar sem þá kemur ekki til niðurgreiðsla frá prófastsdæminu og söfnuðinum. Ef þið eruð í vafa um hvort barnið ykkar er skráð í þjóðkirkjuna er gott að fara á island.is og skoða trúfélagsaðild. Það er ekki skilyrði að vera í þjóðkirkjunni til að sækja fermingarfræðslu og fermast en það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk velji að vera í öðrum söfnuðum. En stundum er það líka þannig að fólk telur sig vera í þjóðkirkjunni, en er ekki skráð í hana af einhverjum ástæðum. Við bjóðum að sjálfsögðu öll þau velkomin sem vilja vera þjóðkirkjumeðlimir, og einfaldast er að skrá sig á island.is," segir í textanum.
Fram kemur í greininni í morgun að prestunum þyki leitt ef fólk hafi kosið að skilja þessa klausu sem afarkosti um þjóðkirkjuaðild sem skilyrði fyrir fermingu í Grafarvogskirkju.
Bæta þeir við að „ennþá verra þykir okkur að prestur Fríkirkjunnar skuli velja að fara fram með þeim hætti sem hann gerði í Morgunblaðinu. Eitt símtal hefði nægt til að leiðrétta þetta.“