Ljóst að Fossvogsbrú verður talsvert dýrari

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir nýja kostnaðaráætlun Fossvogsbrúar ekki …
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir nýja kostnaðaráætlun Fossvogsbrúar ekki liggja fyrir. Samsett mynd

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri Samgangna ohf., segir að tveggja ára gömul tala um áætlaðan kostnað Fossvogsbrúar sé ekki lengur í gildi og ljóst sé að brúin verði talsvert dýrari.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, að hann hafi fengið þau svör frá umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í desember að kostnaður brúarinnar gæti numið 2,2 milljörðum króna. Telur Kjartan augljóst að um vanmat sé að ræða og að kostnaðurinn verði frá fimm til sjö milljörðum króna.

„Síðan þessi áætlun var gerð hefur verðlag auðvitað hækkað mjög mikið. Innrás Rússa í Úkraínu hefur hækkað verð á stáli og steypu sem er mikilvægt byggingarefni í brúna, þannig að það er ljóst að hún verður talsvert dýrari,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.

Nýjar tölur liggja ekki fyrir

Bendir hann á að gildandi kostnaðaráætlun hafi verið gerð árið 2021 en Betri samgöngum hafi í mars þessa árs verið falið að uppfæra allar áætlanir sem tengjast Samgöngusáttmálanum. Því liggi engar nýjar tölur fyrir um kostnað Fossvogsbrúar.

„Það er allt í skoðun núna og verður í skoðun næstu vikur og mánuði. En á endanum eru það stjórnvöld sem ákveða hvernig mannvirki þau vilja og hvað þau kosta þá.

Ég hef ekki heyrt þessar tölur sem Kjartan nefnir en það er alveg ljóst að tveggja ára gamlar tölur, fyrir þessar hækkanir, eru augljóslega ekki lengur í gildi, en það eru engar nýjar tölur tilbúnar og þær verða ekki tilbúnar fyrr en í vor.“

Gert er ráð fyrir umferð gangandi og hjólandi og borgarlínu …
Gert er ráð fyrir umferð gangandi og hjólandi og borgarlínu í miðjunni. Skjáskot/Alda

Engar sérstakar áhyggjur af brúnni

Betri samgöngur munu skila sínum tillögum í lok maí til ríkisins og sveitarfélaganna sem hafa, að sögn Davíðs, ákveðið að nota júní til þess að taka lokaákvörðun um uppfærslu á Samgöngusáttmálanum.

„Það kemur óvart að það sé bara verið að spyrja um Fossvogsbrúna af því að hún er ein af fjölmörgum verkefnum sem við erum að vinna að og uppfæra áætlanir um. Ég myndi ekki hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af henni umfram aðrar áætlanir sem við erum að vinna að,“ segir Davíð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert