Þór fór

Betri er auð bryggja en illa skipuð kunna kannski einhverjir …
Betri er auð bryggja en illa skipuð kunna kannski einhverjir að hugsa nú, Þór hefur haldið á braut og verður spennandi að fylgjast með hvar hann birtist næst eftir páskaheimsókn til Þórshafnar. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Auð flotbryggja blasti við íbúum Þórshafnar í morgun þar sem tröllaukinn skrokkur rostungsins Þórs lá í gær, bæjarbúum og gestum til yndisauka þótt Aron Björn Guðmundsson lögregluvarðstjóri brygði reyndar skjótt við og lokaði bryggjunni til öryggis. Vandi er að spá um hvernig vel tennt dýr, sem getur orðið þyngra en Toyota Yaris fullvaxið, bregst við því að vera skyndilega orðið ljósmyndafyrirsæta.

Eins og fram kemur í fréttinni sem hér er hlekkjuð við var Rune Aae, doktorsnemi í náttúruvísindum í Noregi og gríðarlegur rostungaáhugamaður, ekki lengi að slá því föstu að þarna væri rostungurinn Þór kominn en hann sást á Breiðdalsvík í febrúar. Þór er víðförull mjög, búinn að frílysta sig í Hollandi, Frakklandi og Bretlandi síðan í júlí í fyrra en eins og Aae sagði við mbl.is í gær er för hans nú líklega heitið á vit ættingja á Grænlandi frekar en Svalbarða úr því hann millilendir á Íslandi.

Þessari mynd náði Jón Gunnar Geirdal af dýrinu skömmu eftir …
Þessari mynd náði Jón Gunnar Geirdal af dýrinu skömmu eftir að þess varð vart í gærmorgun. Ljósmynd/Jón Gunnar Geirdal

Halldór R. Stefánsson, sjómaður á Þórshöfn, veit ekki með vissu hvenær Þór fór, en við honum blasti auð bryggjan í morgun. Halldór var á ferð í gær og íhugaði að leggja grásleppunet sín þegar Þór varð á vegi hans á bryggjunni. Nú hefur Halldór ákveðið að vera ekkert að leggja netin í bili þótt rostungurinn loki ekki lengur leiðinni að mastra jó hans. Vindasamt er fram undan og allt í óvissu með grásleppuna.

Mastra jór er fönguleg skipskenning úr skáldskap og notar Hjálmar frá Bólu hana til dæmis í mansöngnum að Göngu-Hrólfsrímum sínum:

Skikkju-Hrund það skemmtun bjó,

skáldin mjúk í svörum,

mönduls þegar mastra jó

minnis ýttu úr vörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert