Hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak hefur ákveðið að staldra við og hlúa að sjálfri sér. Hún segist ætla að nýta tímann til þess að hvíla sig og ákveða næstu skref. Edda opnaði sig í langri færslu á samfélagsmiðlum í kvöld.
Í færslunni segir Edda að árásir á hennar persónu muni ekki stoppa hana né aðra sem standa í sömu baráttu fyrir réttlátu samfélagi.
Edda hefur undanfarin ár stýrt þáttunum Eigin konur og meðal annars rætt við þolendur kynferðislegs ofbeldis. Hún gekk til liðs við ritstjórn Stundarinnar á síðasta ári og síðar til liðs við ritstjórn Heimildarinnar. Hún lét af störfum hjá Heimildinni 31. mars.
Sama dag sakfelldi Héraðsdómur Reykjavíkur Eddu fyrir að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs móður viðmælenda síns þegar hún birti hljóðupptöku af samtali mæðgnanna í þætti sínum. Edda hefur áfrýjað málinu til Landsréttar og stendur söfnun yfir. Hefur rúmlega 1,5 milljón safnast fyrir málarekstrinum.
„Mitt aðalstarf undanfarið hefur verið að gefa brotaþolum rými til að koma sögum sínum á framfæri þar sem þau skortir oft félagslegt vald til þess. Hluti af þeirri vinnu hefur auk þess verið að benda á þann samhljóm sem komið hefur fram í reynslusögum þeirra þar sem það sýnir okkur sem samfélagi að vandinn er kerfislægur. Þó svo að ég hafi staðið í stafni baráttunnar þá er ég ekki baráttan og baráttan er ekki eingöngu mín,“ skrifar Edda.
Hún segir hluta af vandamálinu núna, eins og svo oft áður, vera að baráttan sé persónugerð.
„Þannig er hægt að ýta til hliðar fjölda upplifana sem komið hafa fram og áminningum um djúpstæðan kerfislægan vanda undir þeim formerkjum að mér sem persónu sé ekki treystandi. Ég hef staðið mikið til ein í þessum stafni. Ég stend auðvitað við hlið ótrúlegs fjölda kvenna sem hefur leyft mér að eiga hlut í þeirra baráttu með því að gefa þeim orðið. Eins stend ég við hlið annarra kvenna sem standa í sömu baráttu á öðrum vettvangi. En ég hef líka verið ein,“ skrifar Edda.
Edda segist hafa þurft að skrifa þennan pistil áður, árin 2021 og 2022. Hún segir að á síðustu tveimur árum hafi hún þurft að þola linnulaust áreiti og árásir fyrir það eitt að veita þolendum ofbeldis vettvang til að segja sína sögu.
„Ég hef verið uppnefnd og gerð að skessu af heilu bæjarfélagi, dregin fyrir dóm vegna starfa minna, mér hafa borist hótanir um ofbeldi og ókunnugir hafa bankað upp á heima hjá mér. Nafnið mitt hefur verið notað yfir 700 sinnum í fréttir og fyrirsagnir. Fólk hefur með einbeittum vilja reynt að grafa upp einhvern skít, skáldað hann upp þegar hann finnst ekki, rýnt í gamlar ritgerðir, grafið undan mér, og reynt að mála mig upp sem ótrúverðuga og í tortryggilegu ljósi. Allt saman þöggunartilburðir sem við þekkjum alltof vel í okkar samfélagi og alltof margar konur og þolendur ofbeldis hafa þurft að sæta, af hálfu þeirra sem virðast eiga þeirra hagsmuna að gæta að þolendur þegi. Ég hefði aldrei tekið viðtal við neina þolendur ef ég hefði hlustað á allt sem sagt er til að ófrægja þau,“ skrifar Edda.