Yfirvofandi bann Evrópusambandsins við notkun innfylliefna með örplasti í gervigrasvöllum kann að hafa mikil áhrif á notkun og endurnýjun gervigrasvalla í Evrópulöndum og er Ísland þar ekki undanskilið.
Efnastofnun Evrópu lagði til fyrir nokkrum árum að innfylliefni sem innihalda örplast verði bönnuð, þar sem hætta væri á því að örplastið sem notað er í dag í gervigrasvöllum bærist út í umhverfið. Í tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) er gert ráð fyrir sex ára aðlögunartíma þar til bannið taki gildi en Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) hefur talið það allt of stuttan aðlögunartíma og þrýst á um að hann verði lengdur í tíu til tólf ár. Ekki hafi enn fundist önnur ásættanleg lausn sem gæti komið í stað þessara innfylliefna.
Knattspyrnusamband Íslands hefur fylgst grannt með þróun þessara mála og stutt kröfur UEFA og einstakra Evrópulanda um lengri aðlögunartíma. Ekki er lagst gegn banninu en rík áhersla lögð á að löndin verði að fá lengri tíma til undirbúnings. Það sé mikið hagsmunamál fyrir um 30 þúsund iðkendur knattspyrnu hér á landi og ekki síður eigenda grasvallanna, sem í flestum tilvikum eru sveitarfélög landsins, vegna mögulega mikils kostnaðar við endurnýjun grasvallanna eftir að bannið er skollið á.
Komið er að ögurstund þar sem svonefnd REACH-nefnd ESB mun að öllum líkindum greiða atkvæði um bannið í lok þessa mánaðar. Í framhaldinu má gera ráð fyrir að það verði endanlega staðfest í júlí og taki gildi síðsumars eða í haust. Þá hefjist aðlögunartíminn sem löndin hafa til að skipta út umræddu efni.
KSÍ hefur að undanförnu vakið athygli stjórnvalda á málinu, ráðuneyta og Umhverfisstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga og verið í sambandi við fulltrúa UEFA, en bannið myndi hafa áhrif á 197 gervigrasvelli hér á landi.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.