Svona vill borgin bæta snjómokstur

Stýrihópur um endurskoðun á vetrarþjónustu kynnti í dag tillögur sínar.
Stýrihópur um endurskoðun á vetrarþjónustu kynnti í dag tillögur sínar. mbl.is/Arnþór

Stýrihópur hefur lagt fram sextán tillögur um hvernig megi bæta vetrarþjónustu í Reykjavíkurborg. Þar er meðal annars stungið upp á að miða vetrarþjónustu við fimm mismunandi stig snjókomu og lagt til að oftar sé mokað á víðgengnum göngustígum.

Stýrihóp var falið að greina hvar þörf væri að bæta vetrarþjónustu í borginni og skýrsla með þeim tillögum var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun.

Kröfunum sextán fylgir aðgerðarlisti með um 40 aðgerðum alls. Miðað er við að flestar aðgerðir verði komnar til innleiðingar fyrir næsta vetur. Áætlaður aukinn kostnaður við rekstur vetrarþjónustu vegna þessara tillagna er um 190 milljónir króna á ári.

Horft til gangandi og hjólandi vegfarenda

Lagt er til að gönguleiðir á stígum í forgangi 1 og 2 verði lausar við snjóruðninga innan við 48 klukkustundir frá síðustu snjókomu, sem miðast við 15 cm snjódýpt. Auk þess er miðað við að biðstöðvar og rútustöðvar verði einnig hreinsaðar af snjó innan tveggja sólarhringa frá síðustu snjókomu.

Meginregla við snjóhreinsun skyldi vera sú að setja snjóruðninga ekki á gangstéttir. Þá er einnig lagt til að gera kort af þeim svæðum og stígum þar sem ekki á að skilja eftir snjóruðning.

Stýrihópurinn leggur til að vetrarþjónusta miði við fimm stig snjóveðurs.
Stýrihópurinn leggur til að vetrarþjónusta miði við fimm stig snjóveðurs. mbl.is/Arnþór

Fimm stig snjóveðurs

Lagt er til breyta þjónustuhandbókinni á þann veg að snjóhreinsun taki mið af magni snjókomu. Þannig eigi tími sem tekur í hreinsun að vera mismunandi eftir því hve mikil snjódýptin mælist.

Þá er lagt til að skilgreina fimm tegundir snjóveðra sem byggjast á dýpt snjós. 

  • Snjóveður 1: Allt að 5 cm jafnfallinn snjór
  • Snjóveður 2: 5-15 cm jafnfallinn snjór
  • Snjóveður 3: 15-25 cm jafnfallinn snjór
  • Snjóveður 4: 25-50 cm jafnfallinn snjór
  • Snjóveður 5: yfir 50 cm jafnfallinn snjór

Viðbragð vetrarþjónustu verður einnig tengt við viðvaranakerfi Veðurstofunnar og samhæft við viðbragðsstig almannavarna á höfuðborgarsvæðinu.

Athuga með snjóbræðslu í vesturbæ

Til greina kemur einnig að kanna snjóbræðslu í íbúagötum í vesturbæ og Þingholtum. Þá yrði gerð markaðskönnun og mat lagt á hvort markaðurinn búi yfir tækjakosti til að geta sinnt þjónustunni með góðu móti.

Stýrihópur um endurskoðun á vetrarþjónustu kynnti í dag tillögur sínar.
Stýrihópur um endurskoðun á vetrarþjónustu kynnti í dag tillögur sínar. mbl.is/Auðun

Þar er einnig stefnt að því að bæta móttöku og svörun ábendinga. Þá er stungið upp á að borgarbúar geti séð á ábendingavef hvort búið sé að senda inn skilaboð um sömu ábendingu en oft berast nokkrar ábendingar um sama málið.

Einnig er lagt til verkefni um að skoða möguleika á forvirkum aðgerðum á götum þar sem mikill snjór safnast með uppsetningu veggja eða annarra snjóvarna sem myndu draga úr snjósöfnun og þar eru Víkurvegur, Lambhagavegur og Korpúlfsstaðavegur nefndir sem dæmi.

Skýrsluna alla má lesa hér

Tillögurnar sextán eru sem fylgja:

  • Hækka þjónustustig húsagatna við snjóhreinsun

  • Endurskoða verklag í tengslum við snjómokstur

  • Skoða fýsileika á forvirkum aðgerðum til að koma í veg fyrir snjósöfnun

  • Bæta snjóhreinsun gönguleiða, stoppistöðva og rútustæða í miðborg

  • Skilgreina verklag í tengslum við klakamyndun á hituðum götum

  • Finna lausn á vetrarþjónustu gönguleiða í Vesturbæ og Þingholtunum

  • Þjónustustig taki mið af magni snjókomu

  • Innleiða markvissan óveðursviðbúnað í vetrarþjónustu

  • Stuðla að væntingar séu í takti við það þjónustustig sem unnið er eftir

  • Nota tæknina til hins ýtrasta til að stuðla að bættri upplýsingagjöf og mæla árangur

  • Bæta móttöku og svörun ábendinga

  • Bæta verklag við snjóhreinsun í samstarfi við þá verktaka sem henni sinna

  • Efla samstarf við sveitarfélög og Vegagerðina

  • Efla eftirlit í vetrarþjónustu

  • Endurskoðun á útboðssamningum

  • Rýni á vetrarþjónustu í nýju skipulagi og við endurhönnun gatna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert