Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embættis landlæknis frá því í júlí í fyrra um að svipta geðlækni leyfi til að ávísa öllum ópíóðalyfjum. Læknirinn hafði ávísað lyfjum óhæfilega á tiltekinn sjúkling og þannig brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum sem læknir.
Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins, sem féll 31. mars, læknirinn segi að málið sé að rekja til þess að hann hafi, þann 12. apríl 2022, ávísað lyf í nokkru magni fyrir sjúkling vegna fyrirhugaðra flutninga hans erlendis. Sjúklingurinn hefði verið til meðferðar hjá lækninum undanfarin ár eftir áratugasögu um fíkn og afbrot, en hann hafi leitað í tugi skipta í vímuefnameðferð á Vog. Hefðbundnar meðferðir hafi reynst árangurslausar og hafi sjúklingurinn glímt við mikla erfiðleika vegna fíknisjúkdóms síns.
Segir að sjúklingurinn hafi verið í skaðaminnkandi viðhaldsmeðferð hjá lækninum og haldist frá afbrotum í fyrsta sinn í tvo áratugi. Læknirinn kveðst hafa viðhaft eftirlit með lyfjainntöku sjúklingsins og meðferðin stuðlað að bættum lífskjörum hans.
Landlæknisembættið gerir aftur á móti athugasemd við orðalag í kæru um „nokkurt magn“ lyfja, en um hafi verið að ræða 40 grömm af morfíni og rúm 70 grömm af oxýkódóni. Telur embættið magnið vera gríðarlegt og óskiljanlegt. Reiknast embættinu til að frá júní 2018 til mars 2022 hafi verið um að ræða um 2,1 kg af virka efninu og oxýkódóni og frá mars 2020 til mars 20202 hafi verið um að ræða tæplega 1,5 kg af virka efninu morfíni. Séu þá ekki talin með önnur ávana- og fíknilyf sem læknirinn hafi ávísað á sjúklinginn. Hafnar embættið því að meðferðin hafi verið eðlileg og að ávinningur sé metinn út frá því hvort sjúklingur fremji afbrot eða ekki, að því er segir í úrskurðinum.
Þá kemur fram, að það magn læknirinn hafi hafi ávísað á sjúklinginn þann 11. apríl 2022 hefði getað verið sjúklingnum lífshættulegt vegna dauða í ofskammti. Hafa verði í huga að maðurinn glími við fíknivanda og verið lagður inn á bráðamóttöku vegna ofskömmtunar. Læknirinn hafi séð sjúklingnum fyrir fíknilyfjum með sífellt hækkandi skömmtum.
Það er mat heilbrigðisráðuneytisins að embætti landlæknis hafi verið heimilt að svipta lækninum rétti til að ávísa lyfjum í tilteknum ATC flokkum án undangenginnar áminningar. Var því hin kærða ákvörðun staðfest.