Umfangsmikil fjárþörf vegna náttúruvár

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í Hörpu í …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við núverandi fjármögnun mun taka mörg ár að koma á dagskrá og ljúka nauðsynlegum hættumatsverkefnum vegna náttúruvár og aðlögunar vegna loftlagsbreytinga.

Umfangsmikil fjárþörf liggur fyrir í þessum málaflokki og tryggja þarf fjármögnun til framtíðar. Mesta fjárþörfin er áætluð í eftirfarandi málaflokkum, sem auðkenndir voru með rauðum litakóða til marks um umfangsmikla áætlaða fjárþörf:

  • Hættu- og áhættumat
  • Upplýsingatækniinnviðir
  • Vöktun
  • Jarðfræðikortlagning
  • Mannauður

Veruleg fjárþörf er þá að auki áætluð í málaflokkum rannsókna og upplýsingamiðlunar.

Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag. Á fundinum kynnti Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, skýrslu starfshóps um stöðumat og áskoranir varðandi mat og endurmótun á tilhögun hættumats og vöktunar vegna náttúruvár.

Hópurinn, sem var skipaður í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi í mars 2021, skilaði skýrslunni nýlega til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Umfangsmikil fjárþörf liggur fyrir.
Umfangsmikil fjárþörf liggur fyrir. Skjáskot/Náttúruvá - umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið

Yfirfara fjármögnunarleiðir

Meginniðurstöður skýrslunnar eru að tryggja þurfi að mæla- og upplýsingatækniinnviðir standist tækni- og öryggiskröfur hvers tíma, að gera þurfi hættumat vegna allrar náttúruvár og jarðfræðikort í stórum mælikvarða. Styrkja þarf sérþekkingu í málaflokknum og tryggja og viðhalda góðu samstarfi stofnana þannig að fjármunir og sérfræðiþekking nýtist samfélaginu sem best. Þá þarf að byggja upp og viðhalda þekkingu á náttúruvá hjá almenningi og kjörnum fulltrúum.

Í tillögum sínum segir hópurinn þá að æskilegt sé að yfirfara núverandi fjármögnunarleiðir fyrir hættu- og áhættumat með það að markmiði að stuðla að því að það nái yfir alla náttúruvá.

Varða á leið sem aldrei tekur enda

Guðlaugur Þór sagði við tilefnið að skýrslan væri varða á leið sem aldrei tæki enda. Leið sem byggi okkur undir þær aðstæður sem eru á Íslandi.

Hann sagði að frá upphafi hefði verið góð pólitísk samstaða um málið og fullyrti að allir væru sammála um að skýrslan sé vandvirkt og gott plagg. Ráðherra hefur ákveðið að setja af stað vinnu að stefnumörkun um náttúruvá á grundvelli skýrslunnar.

Draga á fram skýra mynd um forgangsröðun verkefna þannig að hægt verði að byggja á henni við gerð fjármálaáætlunar. Samhliða verður metið hvort þörf sé að heildarendurskoðun laga og reglugerða er varða náttúruvá, eins og segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

„Ekki hægt að koma með eina tölu“

Hvað fjármögnun og fjárþörf varðar segir Guðlaugur að  smærri upphæðirnar liggi fyrir og að það sem snúi til dæmis að góðum tækjum til vöktunar hlaupi á hundruðum milljóna.

„Við höfum sett yfir 30 milljarða í varnargarða en það er önnur eins upphæð eftir miðað við þær áætlanir sem eru núna,“ segir hann.

„Ég tel einnig mikilvægt að við skoðum þetta í skipulagi, þegar verið er að skipuleggja byggð og innviði og annað slíkt því þannig er hægt að koma í veg fyrir eitthvað af þessum kostnaði.

Það er ekki hægt að koma með eina tölu. Aðalatriðið er að við séum meðvituð um mikilvægi þess að við séum að búa okkur undir náttúruvá og reyna að koma í veg fyrir slys sem af náttúruvá getur hlotist.“

Forvörn sem skilar sparnaði

Þarf ekki að auka fjárframlög til málaflokksins til allrar framtíðar?

„Vonandi komumst við einhvern tímann á þann stað að við vitum svo mikið að hægt sé að koma í veg fyrir útgjöld.

Þekkingin í bestu útgáfu heimsins, ef við værum með allar upplýsingar um það hvernig og hvenær náttúruvá myndi koma og hvers eðlis hún væri. Það væri náttúrulega forvörn sem myndi skila sér í miklum sparnaði.“

Ráðherra segir málið þó auðvitað ekki svo einfalt. Hann segir þetta vera þróun og að auðvitað hafai mikilla upplýsinga og þekkingar verið aflað á árum og áratugum.

„Við erum meðvituð um að þetta er eilífðarverkefni og við erum meðvituð um að það eru breyttar aðstæður.

Við verðum að setja þetta í algjöran forgang sem við sannarlega gerum í okkar ráðuneyti en það verður að vera hjá stjórnvöldum öllum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum,“ segir Guðlaugur Þór.

Verkefnið í algjöran forgang

Guðlaugur segist hafa trú á því að ef fólk er meðvitað um stöðuna og verkefnin framundan, náist góð samstaða og segir um sameiginlegt verkefni okkar allra að ræða.

„Nú erum við að sameina tíu stofnanir í þrjár. Við erum að strykja starfsstöðvarnar á landsbyggðinni, þar sem mjög mikið af þessum verkefnum eru þar. Þar skiptir bæði staðarþekking máli og miðlun upplýsinga til nærsamfélagana.

Þetta er langhlaup og stórt verkefni. Við gerum þetta ekki ein og það er ekkert leyndarmál að við erum að draga athygli að þessu til að flestir séu meðvitaðir um mikilvægi þessa. Það eru margir sem þurfa að vera meðvitaðir um þetta og koma að þessum málum,“ segir hann.

„Við búum á Íslandi og það er stórkostlegt að búa hér en það liggur alveg fyrir að margar náttúruvár hafa dunið á okkur frá landnámi og sú síðasta er ekki komin.

Vegna loftlagsbreytinga erum við að sjá ýmislegt sem við höfum ekki séð áður sem við þurfum að horfa til.“

V-in þrjú

Guðlaugur segir ekki um eitt verkefni að ræða.

„Hér var talað um v-in þrjú, sem eru vöktun, varnir og viðbragð. Þau eiga við miklu meira heldur en það sem snýr bara að þeim málaflokkum sem ég er með. Það var eðlilega kallað eftir þverfaglegri vinnu.“

Hann segir að rætt hafi verið á fundinum um hluti sem skipta öllu máli svo hægt sé að sinna þessu verkefni. Nefnir hann sem dæmi menntun ungmennana okkar, að við séum með fólk til að vinna að málunum. Hann segir að huga þurfi að miðlun upplýsinga og í skipulagi sveitarfélaga þurfi menn alltaf að huga að náttúruvá.

Ráðherra segir það liggja fyrir að við þurfum að hafa besta mögulegu tækin til að hægt sé að vakta náttúruvá og að sömuleiðis liggi það alveg fyrir að við séum í stórum verkefnum þegar kemur að vörnum en eigum þar mikið eftir.

Margt áunnist en forsendur breyttar

Formaður starfshópsins var Stefán Guðmundsson ráðuneytisstjóri og í honum sátu auk hans þau; Ásta Þorleifsdóttir, Kristinn Hjörtur Jónasson, Sigrún Ólafsdóttir, Bjarni Richter, Björn Oddsson, Sigrún Karlsdóttir og Sunna Björk Ragnarsdóttir.

Í skýrslunni kemur fram að margt jákvætt hafi áunnist síðustu ár og áratugi þegar kemur að þekkingu á náttúruvá og viðbrögðum við náttúruváratburðum.

Þar kemur þó fram að forsendur hafi þó líka verið að breytast og séu helstu áhrifavaldarnir breyting á byggðamynstri og landnýtingu, aukin ferðamennska og þekking á mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruvá og tíðni atburða.

Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, var formaður …
Stefán Guðmundsson, ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu, var formaður starfshópsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert