Fordæma viðhorf Helgu

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands og Helga Dögg Sverrisdóttir, …
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands og Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.

„Hvers kyns mismunun, svo sem á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingi eða hópi sem fyrir henni verði, verður ekki liðin.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Kennarasambands Íslands, varðandi greinaskrif Helgu Daggar Sverrisdóttur, grunnskólakennara í Morgunblaðinu í gær.

Í skrifum sínum velti Helga Dögg fyrir sér hvort fræðsla á vegum Samtakanna '78 í grunnskólum gerðist brotleg við 99. gr barnverndarlaga. Í greininni lýsti Helga Dögg þeirri skoðun að fræðsla í skólum varðandi transmálefni sé móðgandi og vanvirðandi háttasemi sem stefni heilsu og þroska barna í hættu, en upptalin atriði eru brot á 99. grein barnaverndarlaga.

Helga telur það ruglandi að fræða börn um annað en líffræðilegt kyn og hvetur foreldra til þess að kvarta og jafnvel kæra, verði þeir varir við fræðslu um málefnið í grunnskólum. 

Ekki rétt titluð í greininni

Helga Dögg er titluð í greininni sem fulltrúi í vinnuumhverfisnefnd Kennarasambands Íslands, en yfirlýsing KÍ leiðréttir það „Viðkomandi er ekki lengur fulltrúi í nefndinni þar sem breytingar urðu á fulltrúum á síðasta þingi KÍ,“.

Í yfirlýsingunni skrifar Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, fyrir hönd stjórnarinnar að sambandið hafi nýverið samþykkt nýja jafnréttisáætlun og að Samtökin '78 hafi verið mikilvægt afl í að veita íslenskum kennurum fræðslu til að bæta líðan hinsegin ungmenna.

„Við hörmum það viðhorf sem fram kemur í umræddri grein og erum þess fullviss að íslenskir kennarar fylgja jafnréttisáætlun okkar og vinna að hagsmunum allra barna og gegn hvers kyns fordómum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert