Hypjaðu þig, strákur, annars læt ég handtaka þig!

Gísli Gestsson kvikmyndagerðarmaður var ljósmyndari á Alþýðublaðinu fyrir um 60 …
Gísli Gestsson kvikmyndagerðarmaður var ljósmyndari á Alþýðublaðinu fyrir um 60 árum. ​Ljósmynd/Gerður B. Gíslason

Uppi varð fótur og fit á Íslandi vorið 1962 þegar tékkneskum borgara var vísað úr landi fyrir njósnir. Gísli Gestsson, ljósmyndari Alþýðublaðsins, lagði mikið á sig til að ná mynd af manninum, þar sem hann sat í stofufangelsi á Hótel Borg. 

„Hér er hann á Alþýðublaðsmynd – og spyrjið okkur ekki hvernig hún er tekin!“ Þessi myndatexti undir ljósmynd Gísla Gestssonar á forsíðu Alþýðublaðsins þriðjudaginn 22. maí 1962 vekur óneitanlega forvitni.

Hún er af tékkneska ríkisborgaranum Vlastimil Stochl, greinilega tekin inn um glugga, daginn áður en honum var vísað úr landi fyrir tilraun til njósna á Íslandi. Málið skók íslenskt samfélag, eins og sjá mátti á forsíðufyrirsögnum blaðanna þennan vordag, en Gísli var sá eini sem náði mynd af Stochl, þar sem hann sat í stofufangelsi íslenskra yfirvalda seint að kvöldi 21. maí á Hótel Borg og beið þess að verða vísað úr landi. Stochl var fyrrverandi starfsmaður tékkneska sendiráðsins í Reykjavík.

„Við vissum að menn sem senda átti úr landi voru oft geymdir á Hótel Borg og Björn Jóhannsson, fréttastjóri á Alþýðublaðinu, sem síðar vann lengi á Morgunblaðinu, sendi mig þangað til að freista þess að ná af honum mynd,“ rifjar Gísli Gestsson upp öllum þessum árum síðar.

Vissi að Tékkinn væri þarna

„Komið var kvöld og ég byrjaði að banka á herbergin, eitt af öðru, og þegar ég kom upp að herbergi númer 404 opnaði maður sem ég kannaðist vel við og var raunar frændi minn, Árni Sigurjónsson, starfsmaður hjá Útlendingaeftirlitinu. Honum varð bilt við og sagði: „Hypjaðu þig, strákur, annars læt ég handtaka þig!“ Þá vissi ég auðvitað um leið að Tékkinn væri þarna.“

Leiðin gegnum dyrnar að herberginu var sum sé ekki greið en Gísli dó ekki ráðalaus. „Blaðamenn hittust reglulega í turnherberginu á Hótel Borg, þannig að ég var húsvanur, og vissi að hægt væri að komast út á syllu utan á hótelinu. Ég setti því gleiðlinsu á myndavélina og flass og skreið út á sylluna í brjálæðislegri bjartsýni,“ rifjar Gísli upp en hann var tvítugur á þessum tíma. 

Forsíða Alþýðublaðsins 22. maí 1962 með myndinni góðu.
Forsíða Alþýðublaðsins 22. maí 1962 með myndinni góðu.

Gísli man ekki hvað hann beið lengi. „Kannski voru það bara 10 mínútur, kannski hálftími, en þegar ég var búinn að sigta herbergið út á fjórðu hæðinni kom í ljós að dregið var fyrir gluggann. Ekki var því um annað að ræða en að bíða. Að því kom að dregið var frá og glugginn opnaður, þannig að Tékkinn var greinilega ekki sofnaður. Þarna var tækifærið komið og ég rétti út hendina og fretaði af einu skoti.“

Í myndatextanum á forsíðunni segir um þennan gjörning: „Í sömu andrá sem Gísli smellti af, varð gæzlumaður Stochls var við Ijósmyndarann og dró tjöldin fyrir gluggann í skyndingu.“

Lengstu 10 mínúturnar

Því næst dreif Gísli sig niður á Alþýðublað til að framkalla filmuna sjálfur, eins og ljósmyndarar gerðu þá, enda orðið framorðið. „Það eru lengstu tíu mínútur sem ég hef lifað, meðan við biðum til að sjá hvort eitthvað væri á filmunni.“

Það reyndist aldeilis vera, Stochl sat þar hugsi með spenntar greipar, svo sem sjá má á myndinni hér til hliðar. „Þegar myndin var komin spurði Gísli Ástþórsson ritstjóri mig hvernig í ósköpunum ég hefði náð henni en greip fram í fyrir sjálfum sér: „Nei, ég ætla ekki að spyrja þig!“ Myndin fór að sjálfsögðu beint á forsíðuna.“

Nánar er fjallað um málið i Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka