„Það er ekkert byggðarlag á Íslandi, með fleiri en 100 íbúa, sem kallar á nagla núna. Þú kemst allan hringinn án þess að lenda í hálku,“ segir Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar í samtali við mbl.is.
Hann gagnrýnir lögregluna í færslu á Facebook, en tilefnið er yfirlýsing lögreglunnar þess efnis að ekki verði sektað fyrir akstur á nagladekkjum fyrr en í maí, þrátt fyrir að tími nagladekkja sé nú liðinn lögum samkvæmt.
„Það byrjaði fyrir einhverjum árum að lögregla fór að gefa út svona opinberar yfirlýsingar, að hún ætli ekki að sekta í tvær vikur eftir 15. apríl og svo gildir það sama á haustin. Þannig er lögreglan að lengja nagladekkjatímabilið um mánuð. Þegar þetta er gagnrýnt er því vanalega svarað á þann veg að aðstæður séu misjafnar og sums staðar á landinu þurfi fólk nagladekk.“
Pawel segir að með færslunni vilji hann benda á að það sé „ekkert við aðstæður neins staðar á landinu sem réttlæti þetta núna“.
Í lögunum er veitt ákveðið svigrúm, þannig að veita má undanþágu frá nagladekkjatímabilinu ef aðstæður réttlæta það. Pawel finnur aftur á móti að því að þessi svigrúmsregla sé nú túlkuð svo rúmt af lögreglu.
Í færslu sinni kastar Pawel fram þeirri spurningu hvort lögregla geti með sama hætti gefið það út að skemmtistaðir megi hafa opið allan sólarhrigninn, þrátt fyrir bann við lögum, eða að ekkert verði aðhafst vegna hraðaksturs.
Spurður hvort Pawel hafi kannað hvort spár geri ráð fyrir jafn góðum akstursskilyrðum næstu tvær vikur og hafa verið undanfarna daga, kveðst Pawel ekki hafa gert það en bætir við: „Ég hef ekki séð að rökstuðningur lögreglunnar í þessari færslu sem hún birti byggist á veðurspá næstu tveggja vikna heldur.“
Jafnframt bendur Pawel á að erfitt sé þegar tvenn stjórnvöld, sveitarstjórn og lögregla, sendi svo misvísandi skilaboð.
„Við erum annars vegar með sveitarfélög sem hvetja okkur mjög til þess að draga úr notkun nagladekkja, en svo kemur sá sem á að vera að fylgjast með því og segir bara: „nei nei þið þurfið ekkert að stressa ykkur næstu tvær vikurnar““.
Pawel líkir þessu við það ef borgin færi í átak til að hvetja fólk til að ferðast með almenningssamgöngum á landsleiki, en svo myndi lögreglan lýsa þvi yfir að hún ætlaði ekki að sekta neinn fyrir það að leggja bifreiðum sínum ólöglega í grennd við þjóðarleikvanginn.
„Við viljum gott samstarf við okkar ágætu lögreglu um þessi mál sem önnur en þetta er til þess fallið að draga úr mætti þeirra skilaboða sem við erum að reyna að senda frá okkur.“