„Ef við gerum ekki eitthvað núna þá stefnir í óefni á næstum árum enda verður losun borgarinnar búin að þrefaldast. Þá er ljóst að markmið um kolefnishlutleysi munu ekki nást,“ segir Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Ragnhildur Alda leggur fram tillögu í borgarstjórn á morgun um að framkvæmd verði úttekt og rekjanleikagreining á úrgangsstraumum frá starfsstöðum Reykjavíkurborgar til þess að draga úr úrgangi, auka endurvinnslu, lækka kostnað og ekki síst bæta yfirsýn yfir úrgangsmálin hjá starfsstöðum borgarinnar.
Borgarfulltrúinn rekur í samtali við Morgunblaðið að rusl sé fjórða stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda í Evrópu en mesti skaðinn sé af völdum sorps sem fari í urðun. Í Græna bókhaldi Reykjavíkurborgar komi fram að í rekstri sínum henti borgin rétt tæplega 2.800 tonnum af rusli árið 2021. Þar af fóru 67% í urðun eða 1.900 tonn. Úrgangslosun frá rekstri Reykjavíkurborgar hefur að hennar sögn aukist mikið undanfarin ár og ætti með þessu áframhaldi að rjúfa þrjú þúsund tonna múrinn við lok þessa kjörtímabils.
„Bæði Reykjavíkurborg og ríkið hafa sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Áherslan hefur verið sett á samgöngumál en mér hefur þótt rétt að halda til haga þætti sorps í losun gróðurhúsalofttegunda. Reykjavíkurborg urðar allt of mikið af rusli frá rekstrinum. Raunar er það svo að urðun sorps er stærsta ástæða losunar gróðurhúsalofttegunda frá rekstri borgarinnar og fer bara vaxandi nema eitthvað verði að gert.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.