Gerir Ísland ekki að líklegra skotmarki

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að ósk frá bandarískum stjórnvöldum um að Ísland muni sinna kafbátaþjónustu fyrir bandaríska herinn hafi komið fyrir um ári síðan.

Hún telur að Ísland verði ekki líklegra skotmark þó kafbátarnir verði þjónustaðir hér við land og að alveg skýrt sé að engin kjarnavopn fari um landhelgina. 

Skiptir raunverulegu máli 

„Hér sinna Bandaríkjamenn kafbátaeftirliti og það verður engin breyting hér á eftir sem áður. Það að þeir fái að sigla hingað upp í stað þess að sigla til Noregs er atriði sem skiptir raunverulegu máli til sameiginlegra varna fyrir Atlantshafsbandalagið.

Þetta snýst um að við séum betur í stakk búin til að sinna eftirliti á þessu svæði ekki vegna þess að Ísland sé í sérstakri hættu, heldur vegna þess að þetta gefur betri yfirsýn og eftirlit með svæðinu í kringum okkur,“ segir Þórdís Kolbrún

Bandaríkjamenn virði fjarveru kjarnavopna 

Hún segist ekki getað tjáð sig mikið um umferð rússneskra kafbáta á undaförnum árum á hafsvæðum við Ísland. Hins vegar sé ljóst að fælingarmáttur aukist við það að kafbátar Bandaríkjamanna fari til Íslands í þjónustuheimsókn.

Þórdís segir að búnaður hafi verið keyptur en að öðru leyti hafi ekki þurft innviðauppbyggingu til að taka á móti kafbátunum í Helguvík.

Er skilyrt að engin kjarnavopn muni fara inn í landhelgina?

„Okkar stefna er mjög skýr í þeim efnum og Bandaríkjamenn eru meðvitaðir um hana, viðurkenna hana og hafa lýst því yfir að þeir muni virða hana. Norðmenn eru með sambærileg stefnu og þar hafa Bandaríkjamenn komið í þjónustuskoðun um áratuga skeið og engin vandamál fylgt því,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert