Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hringir viðvörunarbjöllum vegna mikils bakslags í bólusetningum barna á heimsvísu. Ný skýrsla stofnuninnar segir að um 67 milljónir barna hafi misst af einni eða fleiri bólusetningum á síðastliðnum þremur árum.
Covid-19 heimsfaraldurinn er talin ein helsta ástæða þróunarinnar. Skýrslan segir traust almennings til bólusetninga hafi farið minnkandi eftir að faraldurinn hófst og hafa leitt til mestu afturför í bólusetningum barna í þrjá áratugi. UNICEF segir einnig aukið álag á heilbrigðiskerfi, skorts á heilbrigðisstarfsfólki og sóttvarnaraðgerðir hafa leitt til færri bólusetninga.
Þróunin setur börn um allan heim í hættu vegna sjúkdóma á borð við mislinga, barnaveiki og mænusótt en árið 2022 tvöfölduðust tilfelli mislinga samanborið við árið á undan og fjöldi barna sem lömuðust vegna mænusóttar jókst um 16 prósent. „Við getum ekki leyft því að gerast að traust á venjubundnum bólusetningum verði enn eitt fórnarlamb heimsfaraldursins. Þá gæti næsta bylgja dauðsfalla orðið meðal barna með mislinga, barnaveiki eða aðra sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir,”segir framkvæmdastjóri UNICEF, Catherine Russel.
Með skýrslunni vilja samtökin minna á að sjúkdómar virða engin landamæri og biðla til stjórnvalda á heimsvísu að auka fjármagn til bólusetninga barna, til að koma í veg fyrir að börn veikist alvarlega eða deyi af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir.