Söngkonan Elísabet Ormslev segist ekki hafa fengið afsökunarbeiðni og að hún leggi ekki opinberar yfirlýsingar að jöfnu við persónulega afsökunarbeiðni.
Þetta skrifar Elísabet á Facebook-síðu sína og vísar þannig í afsökunarbeiðni sem söngvarinn Pétur Örn Guðmundsson birti á Facebook í gær.
Í yfirlýsingunni sagðist Pétur sjá eftir sambandi sem hann átti við yngri manneskju sem hófst fyrir þrettán árum síðan, en stóð alls yfir í ellefu ár. Hann baðst afsökunar á að hafa sært viðkomandi.
Greindi Pétur einnig frá því að hann hafi undanfarið ár staðið í sjálfsskoðun og leitað sér aðstoðar.
Fyrir rúmu ári var Pétri vikið úr tveimur hljómsveitum. Honum var vikið úr hljómsveitunum degi eftir að viðtal við Elísabetu birtist í Fréttablaðinu um samband hennar við mikið eldri frægan tónlistarmann. Í viðtalinu kom fram að „samband“ þeirra hefði hafist þegar hún var barnung.
„Ég hef ekki fengið neina afsökunarbeiðni. Ég fagna allri sjálfsvinnu og vilja til betrum bætingar en ég legg ekki opinberar yfirlýsingar að jöfnu við persónulega afsökunarbeiðni,“ skrifar Elísabet á Facebook.
Að gefnu tilefni: Ég hef ekki fengið neina afsökunarbeiðni. Ég fagna allri sjálfsvinnu og vilja til betrumbætingar en ég legg ekki opinberar yfirlýsingar að jöfnu við persónulega afsökunarbeiðni.
Posted by Elísabet Ormslev on Föstudagur, 21. apríl 2023