Búast má við hlýjum dögum og köldum nóttum í maí að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Hæð verður með öllum líkindum yfir landinu í byrjun maímánaðar sem gæti leitt til þessa.
Einar skrifar á veðurvef sínum Bliku að langt sé í eiginlegt sumar, enda stutt liðið af vorinu.
Greint var frá því í dag að hæðin sem var yfir landinu hefði þokast yfir til Grænlands, sem leiðir til þess vindar að norðan munu koma yfir landið á næstu dögum.
Norðanvindarnir munu hafa áhrif hér á landi og búist er við svalri helgi. Einar segir að jafnvel sé búist við snjókomu á Bretlandseyjum, sem sýni að þessir norðanvindar hafi greinilega einnig áhrif þar.
Einar segir að allar helstu spár geri ráð fyrir hæðarsvæði yfir landi. Stundum sjáist skyndileg uppbrot í spánum sem gefi í skyn veðurfarsbreytingar en svo virðist ekki vera í þessu tilfelli.
Hæð yfir landi muni að öllum líkindum leiða með sér frost á næturnar en hlýju á daginn. Yfirleitt fylgi mikill þurrkur slíku en það sé lítið áhyggjuefni eins og staðan er núna þar sem vel hefur rignt í apríl.
Einar bendir á að meðalloftþrýstingur sé yfirleitt hæstur í maí hér á landi. Auk þess sé maí yfirleitt þurrastur allra mánaða.
Spurður hvernig sumarið líti út í spánum svarar Einar að erfitt sé að segja til um það.
„Það er í raun og veru bara næsta árstíð. Það kom spá fyrir mánuðina júní, júlí og ágúst sem kemur einu sinni í mánuði,“ segir hann. „Það eru nokkrir sem reikna svoleiðis spár og þær voru svolítið út og suður.“
Hann segir að stundum hafi sumarspár verið líkar hver annarri og gengið sæmilega eftir. Mismunurinn gæti tengst hlýnun í sjávarstraumum kyrrahafsins.
„En það gæti haft áhrif núna að það eru mikil umskipti í sjávarhitanum í kyrrahafinu sem hafa áhrif á veður um alla jörð. Við erum að fara úr þessu kaldsjávarástandi yfir í hlýsjávarástand.“
Það geti einnig verið að líkönin geri ekki ráð fyrir þeirr breytingu. Að sögn Einars kemur ný spá fyrir sumarið um miðjan maímánuð, sem verður mögulega stöðugri og gæti hugsanlega veitt betri upplýsingar um slíkt.