Gísli Freyr Valdórsson
Reykjavík sker sig úr þegar borin er saman þróun rekstrar þriggja stærstu sveitarfélaga landsins síðustu tvö kjörtímabil – eða frá lokum árs 2014. Skuldir A-hluta Reykjavíkurborgar hafa nær tvöfaldast á föstu verðlagi á umræddu tímabili, en skuldir Kópavogs og Hafnarfjarðar hafa aukist um innan við 10%.
Þegar þróun skuldahlutfalls þriggja stærstu sveitarfélaganna er skoðuð frá lokum árs 2014 sést að nokkuð hefur dregið saman með þeim. Skuldahlutfall A-hluta Reykjavíkurborgar var tæplega 80% árið 2014, en hlutfall Kópavogs var 160% og Hafnarfjarðar tæplega 190%. Á síðasta ári var hlutfall Reykjavíkur komið í 100%, en Kópavogur var í um 110% og hlutfall Hafnarfjarðar var komið í tæplega 150%. Þegar skuldahlutfall A- og B-hluta sveitarfélaganna er skoðað sést sama þróun enn skýrar. Á meðan Hafnarfjörður og Kópavogur hafa náð miklum árangri í lækkun hlutfallsins hefur það aukist hjá Reykjavík.
Íbúum hefur fjölgað hlutfallslega mest í Kópavogi á tímabilinu, eða um rúmlega 20%. Ef horft er á skuldir í samhengi við íbúaþróun hafa skuldir á hvern íbúa í Reykjavík vaxið um 69% frá árinu 2014, en skuldirnar á hvern íbúa í Kópavogi hafa lækkað um 11% og 20% í Hafnarfirði. Fjölgun íbúa í Kópavogi og Hafnarfirði hefur þannig lækkað skuldir á hvern íbúa sveitarfélaganna, en þróunin er öfug í Reykjavík, þar sem íbúum hefur fjölgað um 15%.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins