Pósturinn hlýtur gæðavottun IPC

Um er að ræða alþjóðlega úttekt á póstflutningi milli landa.
Um er að ræða alþjóðlega úttekt á póstflutningi milli landa. Ljósmynd/Aðsend

Pósturinn hefur fengið vottun frá International Post Corporation (IPC) en um er að ræða alþjóðlega úttekt á póstflutningi milli landa. Skoðaður er frágangur og vinnsla pósts í því landi sem pakkarnir og bréfin koma frá og í móttökulandinu. Tilgangurinn er að tryggja gæði í póstflutningum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

„Fyrir úttektina var farið yfir lista með ríflega 100 spurningum til að meta hvernig Pósturinn stendur að vígi. Fulltrúar frá IPC komu í heimsókn í október. Þeir þættir sem voru undir smásjánni voru meðal annars vinnuskipulag, gæðastjórnun, samskipti við innri viðskiptavini, flugfélög, höndlunaraðila, IPC og aðrar póststjórnir,“ er haft eftir Selmu Grétarsdóttur, gæðastjóra Póstsins, í tilkynningunni.

Selma Grétarsdóttir er gæðastjóri Póstsins.
Selma Grétarsdóttir er gæðastjóri Póstsins. Ljósmynd/Aðsend

Hafa góða yfirsýn yfir magn sendinga

Pósturinn telur að úttekt sem þessi leiði í ljós hvað gangi vel.

„Í niðurstöðunum eru styrkleikar okkar greindir og þar kemur fram að við höfum á að skipa reynslumiklu starfsfólki og stjórnendum sem eiga það sameiginlegt að vilja gera breytingar til hins betra á vinnustaðnum og sýna ábyrgð í verki. Það telst okkur líka til tekna að við höfum góða yfirsýn yfir það magn sendinga sem þarf að vinna í Póstmiðstöðinni,“ er haft eftir Selmu.

„Auk þess fáum við góða einkunn fyrir pakkaflokkarann, Magna, sem var tekinn í notkun árið 2021 til að mæta auknum umsvifum. Einnig eru höfð jákvæð orð um upplýsingaflæði til pósthúsa sem við erum í samstarfi við og rakningarferlið.“

Þá telur Pósturinn ekki síður mikilvægt að fá ábendingar um hvar tækifærin liggja. „Við ætlum til að mynda að skoða ferlateikningar og samninga- og skýrslugerð enn betur,“ er haft eftir Selmu, en nú þegar hefur verið ráðist í þessi verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert