43,4 stiga frost mældist við Garðskagavita í Suðurnesjabæ í nótt en um bilun í mæli Veðurstofunnar var að ræða. Rétt hitastig á svæðinu var um 1 til 3 stiga hiti. Rúmlega tíu stiga frost mældist á Gagnheiði á Austfjörðum í nótt og 9,4 stiga frost á Staðarhól í Saurbæ.
Samkvæmt textaspá Veðurstofu Íslands má búast við éljagangi á norðaustanverðu landinu á morgun. Veðurfræðingur á Veðurstofunni segir að éljagangur verði sem mestur á norðanverðu landinu frá og með föstudeginum og muni ná fram yfir helgi. Hann segir að ólíklegt sé að veðurfar valdi nokkrum samgönguerfiðleikum en þó megi búast við einhverri hálku á norðanverðu landinu.
Á höfuðborgarsvæðinu má búast við að skýjað verði með köflum í kvöld með minniháttar úrkomu. Hitastig á morgun verði um 3-8 stig en nær frostmarki næstu nætur. Ekki er útlit fyrir að éljagangurinn gangi yfir höfuðborgarsvæðið.
Veðurfræðingur segir að lægð sé að nálgast landið og þess vegna ríki óvissa í spánum um hvernig veðurfar muni verða eftir helgi. Hann segir að það gæti komið úrkoma með lægðinni yfir allt Suðurland.