„Fundaröðin snýr að loftslagsmálum og orkuskiptunum með sérstaka áherslu á vindorkuna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra um fundaröð um orkuskipti sem er á vegum ráðuneytisins.
Hefst hún í Reykjavík í dag á Nauthóli kl. 16:30 og kl. 20 í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. Skýrsla starfshópa hefur litið dagsins ljós um málefnið sem nálgast má á vef Stjórnarráðsins.
Guðlaugur segir að farið sé með vindorkuna eins og alla aðra orkukosti í gegnum rammann. Sérstakur starfshópur skoðaði reynslu, lög og reglugerðir í Danmörku, Noregi, Skotlandi og á Nýja-Sjálandi. „Núna eru tveir vindorkukostir í nýtingarflokki. Það eru Búrfellslundur og Blöndulundur,“ segir Guðlaugur og bætir við að annar hópur sé síðan að skoða vindorkuver á hafi og möguleikana þar.