Kakkalökkum og rottum fjölgar í borginni

Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir segir að rottur séu aftur farnar …
Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir segir að rottur séu aftur farnar að gera æ meira vart við á höfuðborgarsvæðinu sig eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk. Samsett mynd

Rottum hefur farið fjölgandi á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur. Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir segir að minna hafi verið um rottugang þegar Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst en nú sé ástandið aftur farið að líkjast því sem áður var.

Steinar segir að í vorbyrjun virðist rottugangurinn aukast. Hann dragist svo saman yfir sumarið en þegar ný kynslóð komist á legg að haustlagi verði á ný vart við aukinn rottugang.

Meira rusl með ferðamönnum

Steinar rekur fyrirtækið Meindýraeyðir Íslands og hann hefur starfað sem meindýraeyðir frá árinu 2005. 

mbl.is

Að hans sögn var minna um útköll þegar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru við lýði. Dregur hann þá ályktun að það sé vegna þess að mörg veitingahús hafi verið lokuð enda færri ferðamenn og því minna rusl sem rotturnar komust í.

Steinar segir þá að nú séu honum aftur farin að berast útköll vegna rottugangs þar sem ferðamenn eru farnir að koma til landsins í auknum mæli. „Hvort það sé orðið eins og það var fyrir þremur árum, það veit ég ekki. En það stefnir í það,“ segir Steinar.

Margt um miðbæjarrottur

Steinar segir að sum hverfi á höfuðborgarsvæðinu séu verri en önnur. Nefnir hann miðbæinn, einkum nálægt Lækjargötunni, í því samhengi.

Hann tekur þá fram að langbest sé að láta rottur eiga sig, skyldi maður rekast á þær. 

Ef rottu finnst sér vera ógnað og dýrið kemst ekki í burtu segir hann fyrstu viðbrögð dýrsins vera að gera atlögu að manneskjunni.

„Ef þú króar hana af úti í horni, kemur upp varnareðli í dýrinu, eins og í flestum villtum dýrum, og hún ræðst á þig,“ segir hann.

Sveitarfélögin bjóða ókeypis eyðingu

„Það sem ég bendi fólki á sem hringir frá heimilum er að borg og bær eiga að skaffa meindýraeyði,“ segir Steinar.

Hann segir aftur á móti að aðeins sé boðið upp á þá þjónustu á virkum dögum. Fáir hafi þó sérstakan áhuga á bíða til morgundags eftir því að koma rottum úr húsinu. Engum finnist spennandi að fara að sofa með rottu eða annað meindýr í húsinu.

Mjög aukinn kakkalakkagangur

Steinar segir einnig að rottur séu fjarri því að vera eina meindýrið sem hafi gert meira vart við sig á seinasta ári. Hann hefur tekið eftir gríðarmikilli fjölgun á útköllum vegna kakkalakka hér á landi.

„Það er orðin svaka fjölgun á kakkalökkum á Íslandi síðasta árið. Fyrir tveimur árum þegar hringt var í mann um kakkalakka varð maður alveg spenntur, því það var svona öðruvísi en venjulega,“ segir hann en nú fær hann mörg útköll um að sinna kakkalökkum.

„Þetta er bara orðinn partur af því að vera meindýraeyðir.“

Hann segist auk þess hafa tekið eftir því að Íslendingar séu viðkvæmari fyrir slíkum skordýrum en aðrir, enda séu kakkalakkar í flestum öðrum löndum „jafn sjálfsagðir og vindurinn.“

Sem dæmi nefnir hann atvik sem átti sér stað í fjölbýlishúsi þar sem hann var staddur í útkalli vegna kakkalakka. Er hann bankaði á hurð íbúðar kom pólsk kona til dyra. Sú varð steinhissa á því að búið væri að hringja á meindýraeyði vegna skordýranna þar sem einfaldlega væri hægt að traðka á kakkalökkunum.

Hann segir þó að mikilvægt sé að bregðast strax við ef maður sér kakkalakka í íbúð sinni. Oft hafi gerst að kakkalakkar fái að vera óáreittir í húsnæði í stutta stund en séu síðan fljótlega komnir á kreik í fleiri íbúðum í kring. „Það þarf að ráðast á vandamálið áður en það verður útbreitt,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert