„Við stöndum frammi fyrir áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir í allt of langan tíma. Eftir efnahagskrísuna 2010 þá gerðum við allt of lítið þannig að nú erum við búin að vera að auka fjárfestinguna í samgöngumálum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, inntur eftir því hversu mikið fjármagn ríkið sé að setja í brúar- og vegagerð hér á landi.
Sigurður Ingi flutti ávarp á brúarráðstefnu Vegagerðarinnar sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík í dag. Þar var fjallað um brýr í víðu samhengi og litið bæði til fortíðar og framtíðar í samgöngumálum á Íslandi.
Á Íslandi er tæplega 13.000 km langt vegakerfi og á landinu öllu eru 1185 brýr. Af þeim eru 645 einbreiðar brýr en á hringveginum eru 229 brýr. Þær einbreiðu brýr sem verða á vegi okkar þegar farið er um hringveginn voru flestar byggðar upp úr miðri síðustu öld og því byggðar í samfélagi þar sem þarfir, viðmið og umferðarhraði var með allt öðru móti en í dag.
Sigurður Ingi telur gríðarlega mikið hafa áunnist í vegamálum á síðustu 30 árum en þá var síðasta einbreiða brúin opnuð á hringveginum. Samfélagið hafi þó breyst og þjónustukrafan vaxið mjög mikið, bæði yfir vetrar- og sumartímann þar sem umferð hefur margfaldast með komu fleiri ferðamanna til landsins. Þá segir hann mikinn hagvöxt og þrótt í samfélaginu kalla á miklu betra vegakerfi. Mikið og gott verk hafi verið unnið þegar en af nægu sé að taka.
Fækkun einbreiðra brúa er og hefur verið áherslumál stjórnvalda enda um mikið umferðaröryggismál að ræða að mati Sigurðar Inga. Í ávarpi sínu í dag tók hann fram að einbreiðum brúm á hringveginum hefði fækkað töluvert, eða úr 140 í 30 á rúmum 30 árum og fer þeim áfram fækkandi.
„En verkefni okkar snúa ekki aðeins að breikkun brúa, við þurfum jafnframt að endurnýja eldri brýr en ein mikilvægasta samgönguframkvæmd næstu ára verður ný brú yfir Ölfusá en þar er um löngu tímabærar framkvæmdir að ræða.“
Aðspurður út í fjárhagsramma vegamála á Íslandi segir Sigurður Ingi hann allt of þröngan.
„Hann er allt of þröngur og verður það alltaf og áskorunin er vaxandi vegna þess að í rekstri ríkisins eru svokölluð tilfærslukerfi, velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi og fleira en þau eru farin að taka sífellt stærri hluta til sín sem þýðir að það verður minni hluti til fjárfestinga. Í rauninni má segja að um sé að ræða innviðaskuld þar sem við gerðum lítið frá árinu 2010. Ég myndi segja að við ættum inni fyrir aukinni fjárfestingu í samgöngum, bæði framkvæmdalega séð og til að ráðast í nýframkvæmdir.“
Hann segir eina leið til að takast á við þá fjárfestingaráskorun sem felist í samgöngumálum vera að hækka fjárfestingastigið hjá hinu opinbera.
„Þetta spilar allt saman, við þurfum að hækka fjárfestingarstigið hjá hinu opinbera og þess vegna höfum við verið að horfa í að fjármagna það með einhverjum öðrum leiðum eins og höfuðborgarsáttmálinn, eins og jarðgangnaáætlun, eins og samvinnuleiðarverkefnin og þegar við leggjum þetta allt saman ofan á venjulega samgönguáætlun þá er það í mínum huga eina leiðin til að takast á við þessa fjárfestingaráskorun í samgöngumálunum.“
Unnið er samkvæmt samgönguáætlun þegar kemur að fjárveitingu brúa og vegakerfis hér á landi. Sigurður Ingi segist ekki alveg vera með heildarkostnaðinn sem fer í það verkefni á hreinu en segir gríðarlegt verkefni enn óunnin á sama tíma og áskorunin vaxi vegna gríðarlegrar umferðaraukningar og samfélagsbreytinga. Þá segir hann áskorunina í vegamálunum viðvarandi.
„Í rauninni þyrftum við ekki bara að spýta í, heldur spýta í sinnum tveir eða þrír. Ef við hugsum ekki út fyrir boxið þá verðum við alltaf að elta skottið á okkur."
Með því að taka framkvæmdirnar í einhvers konar flýtimeðferð vill Sigurður Ingi meina að það greiði fyrir að hægt sé að fara af stað með þær sem allra fyrst. Þá vísar hann í Hvalfjarðarmódelið sem var borgað upp á lengri tíma eftir að framkvæmdum lauk.
„Ég tel það vera lausnina í hnotskurn. Þó svo að við séum ekki búin að greiða fyrirhugaðar framkvæmdir fyrr en eftir 20-30 ár eftir að þeim er lokið. Það mun taka okkur nokkur ár að ná jafnvægi en ég held að við séum að fara að ná því,“ segir Sigurður Ingi.