Eva Björk Valdimarsdóttir, varaformaður Prestafélagsins, segir úrsögn séra Geirs Waage úr félaginu ekki koma sér á óvart. Það sé þó ekkert stórmál þar sem hann sé hættur störfum.
Þá mun það ekki koma henni á óvart ef að einn eða tveir til viðbótar gangi úr félaginu.
Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í dag sagði séra Geir Waage sig úr Prestafélaginu eftir lagabreytingu félagsins um að prestar á eftirlaunum verði sviptir tillögu- og atkvæðisrétti.
Eva Björk segir að ákvörðun félagsins, um að lífeyrisþegar félagsins hafi einungis lífeyrisaðild, snúist um það að þeir sem hafi beinna hagsmuna að gæta innan félagsins hafi valdið.
Félagið hefur tekið ákveðnum skipulagsbreytingum á síðustu árum og nú sé það meðal annars orðið stéttarfélag. Þá segir Eva það ekki þekkjast innan annarra stéttarfélaga að lífeyrisfélagar hafi svona mikið vald.
Eva hafnar einnig áskökunum Geirs um að konur innan Prestafélagsins starfi ekki eftir klukkan fimm á daginn. Bætir hún við að mikil kynslóðaskipti hafi orðið í prestastéttinni, sem sé jákvætt en „Geir og félögum hugnist ekki“.