Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Reykjavíkurborg og innviðaráðherra ganga gegn samkomulagi frá árinu 2019 sem segir að full þjónusta skuli verða tryggð á Reykjavíkurflugvelli á meðan aðrir kostir fyrir flugvöll séu skoðaðir.
Í gær var birt skýrsla starfshóps sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.
Þar segir að byggð í Skerjafirði myndi að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari.
„Mér skilst á einhverjum nefndarmönnum úr þessari nefnd og með því að lesa sjálfur skýrsluna að helstu niðurstöðurnar séu að þetta muni hafa aukin áhrif á kviku varðandi flugvöllinn og auka áhættu og þar af leiðandi að draga mögulega úr notagildi.
Í skýrslunni stendur alveg skýrt að það þurfi að breyta skipulagsáformunum og það þurfi að fara í auknar rannsóknir,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is.
Innviðaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa tekið ákvörðun um að hafist verði handa við jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði.
„Ég skil ekki hvernig þessi hópur með öllum þessum sérfræðingum innanborðs skuli komast að svona afdráttarlausri niðurstöðu, hvernig er þá hægt að segja það að það sé hægt halda framkvæmdum áfram?“ spyr Vilhjálmur.
„Það sem mér finnst alvarlegt er hvernig Reykjavíkurborg sérstaklega er að ganga gegn samkomulag sem var gert árið 2019,“ segir Vilhjálmur.
„Í samkomulaginu stendur skýrt að á meðan verið er að leita að öðru stæði fyrir flugvöllinn og rannsaka Hvassahraun, að þá verði tryggð full þjónusta á Reykjavíkurflugvelli á meðan. Þjónustan á Reykjavíkurflugvelli yrði sú sama eða betri á meðan. Það er eins og það þurfi ekkert að fara eftir þessu samkomulagi og það skipti engu máli.“
Vilhjálmur segir að hægt sé að byggja íbúðir á mörgum öðrum stöðum en í Skerjafirði, en landsvæði til að byggja upp flugvöll sé af skornum skammti í Reykjavík.
„Mér finnst hagsmunir grunninnviðanna þurfi að vega meira heldur en uppbygging fasteigna í þéttingarstefnu en þetta eru einar af dýrustu fasteignunum sem eru á markaðnum. Það eru einmitt dýrar fasteignir sem eru að halda verðbólgunni á lofti núna,“ segir Vilhjálmur.