„Við byrjuðum í Moldóvu í gær og hittum þar forsætisráðherra, utanríkisráðherra, forseta Moldóvu, forseta þingsins og fólk frá hugveitum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is þar sem hún er stödd í Moldóvu í tveggja daga heimsókn utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem einnig teygði sig til úkraínsku hafnarborgarinnar Ódessu í dag.
Lætur ráðherra vel af heimsókninni og kveður hana hafa verið gagnlega. „Ég hef hitt utanríkisráðherra Moldóvu nokkrum sinnum, eldkláran mann sem bjó nokkur ár í Frakklandi en kom til baka til að gegna þessu starfi og gera sitt besta,“ segir Þórdís og bætir því við að kynslóðaskipti séu nýlega um garð gengin í moldóvskum stjórnmálum og áherslan ríkuleg á að vinna að þeim umbótaverkefnum sem þörf krefur.
„Þar má til dæmis nefna réttarkerfið og almenna stjórnsýslu, hér er vilji til að ganga í Evrópusambandið, en það sem situr eftir er meðal annars að þetta er land sem Rússar reyna að grafa undan, fyrst með orkumálunum í fyrra, en þau komust í gegnum það, en líka með netárásum og keyptum mótmælum,“ heldur Þórdís áfram.
Kveðst hún finna sterkt fyrir þeim eindregna vilja moldóvskra stjórnvalda að komast á sína Evrópuvegferð og færa sig nær evrópskum gildum á borð við lýðræði og mannréttindi „en ég sé líka hvernig þau horfa til Úkraínu. Þau segja bara að ef Úkraína væri ekki lengur að berjast og verjast væru þau ekki lengur fullvalda og frjáls. Þannig að þegar fólk spyr hvað gera megi til að hjálpa Moldóvu er svarið þaðan alltaf að það sé best gert með því að hjálpa Úkraínu,“ segir ráðherra.
„Mig langar til þess að Íslendingar átti sig á því hve mikilvægt það er að Moldóva viðhaldi stöðugleika, fái áfram að vera frjáls og fullvalda og velja sína leið að sinni framtíð sem er önnur leið en Pútín myndi vilja að þau veldu. Heima á Íslandi segjum við að það sem Úkraína er að berjast fyrir sé okkar barátta en sú tilfinning er svo ótrúlega nálæg hér og bókstafleg. Úkraína er þeirra vörn og fælingarmáttur,“ segir Þórdís um Moldóvubúa.
Enn fremur segir hún það mikilvægt að fara í slíka heimsókn, geta spurt spurninga og fengið svörin frá fyrstu hendi. „Við getum spurt hvað það sé sem þau þurfi frá okkur í formi pólitísks stuðnings eða fjárhagslegs eða hvaðeina. Við komum hér sem fulltrúar ríkjahóps sem samanstendur af Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Þau síðarnefndu benda gjarnan á það að fyrir ekki svo löngu voru þau á sinni vegferð og fengu þá mikinn stuðning frá Norðurlöndunum, hvort tveggja pólitískan og í gegnum umbótaverkefni – sem kom þeim á þann stað sem þau eru á í dag og nú vilja þau gefa af sér líka.“
Hvað með Ódessu, þessa fornu hafnarborg sem fjöldi Íslendinga las um í landafræðibókum fyrir áratugum sem eina af helstu hafnarborgum Sovétríkjanna? Hvernig upplifði ráðherra heimsókn sína þangað?
„Það var ótrúlega merkileg upplifun, þetta er náttúrulega gríðarlega falleg borg með fallegum miðbæ, miklum gróðri og meiri háttar byggingum,“ svarar Þórdís og minnir á að miðbær Ódessu hafi náð inn á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna í fyrra.
„Saga borgarinnar er mjög merkileg vegna hafnarinnar. Þarna voru peningarnir og viðskiptatækifærin og fólk af fjölda þjóðerna hefur átt þarna viðdvöl gegnum aldirnar, þarna var töluð franska og ítalska og þýska, þarna voru gyðingar og þetta var svona heitur pottur, mjög fjölþjóðleg borg sem á sér mikla sögu,“ heldur hún áfram.
Enn fremur sýni Ódessa svo óyggjandi sé hve gríðarleg áhrif ein borg geti haft á matvælaöryggi heimsins. Enn sé samningur um kornútflutning þaðan á stríðstímum í gildi þótt ekki liggi fyrir hvað við tekur er hann rennur sitt skeið á enda.
„Við áttum fund með aðstoðaraðmírálnum yfir sjóhernum sem fór yfir stöðuna á þeim vettvangi og svo hittum við borgarstjóra og tókum þátt í ráðstefnu í morgun um uppbyggingu svæðisins,“ segir Þórdís frá og nefnir um leið einbeittan ásetning úkraínsku þjóðarinnar til að lífa sínu daglega lífi þrátt fyrir þær hremmingar sem landið sæti. „Það var verið að snyrta blómabeðin og laga gangstéttarbrúnirnar, fólk að ganga í vinnu og skóla og sinna sínum erindum þótt í nótt hafi verið gerðar loftárásir skammt frá Kænugarði og fólk dáið þar,“ segir hún frá.
Aðspurð segir Þórdís dagskrá heimsóknarinnar nú lokið, „hluti hópsins fór áðan og ég er á leið heim. Ég kom á miðvikudaginn og hitti þá ræðismann okkar hér í Moldóvu sem er ungur maður í atvinnurekstri. Þetta er í fyrsta sinn sem við erum með ræðismann hér, hann varð ræðismaður hér í fyrra og er einmitt á leið til Íslands núna um miðjan maí,“ segir Þórdís sem sjálf er nýkomin frá Strassborg af fundi Evrópuráðsins, en hún er forseti ráðherranefndar þess, þar á undan var hún í Lúxemborg með utanríkisráðherrum Evrópusambandsins.
Í lok maí er hún svo á leið á óformlegan utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í Ósló þar sem hún kveðst auk þess munu sækja fleiri fundi auk þess sem fundur Eystrasaltsráðsins sé yfirvofandi. „Leiðtogafundurinn í Vilníus er svo í júlí og það er okkar utanríkisráðherranna að undirbúa hann, það er svona næsta stóra málið sem er á dagskrá,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í spjalli frá Moldóvu.