Ungt fólk harmar neysluvenjur landsmanna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fylgjast með erindi ungmennaráðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Neysla Íslendinga er of mikil að mati Ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Vistspor meðallandans er 12,7 en þarf að vera 1,7 til þess að ná markmiðum SÞ. Sjö ár eru til stefnu þar til öllum markmiðum SÞ á að vera náð.

Ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands, að undanskildum dómsmálaráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra, gengu fylktu liði í dag af ríkisstjórnarfundi og á fund ungmennaráðsins í Safnahúsinu. Þar kynntu fulltrúar ráðsins áherslur sínar er varða heimsmarkmiðin sautján. 

Ungmennaráðið lagði fram ýmis atriði sem það telur Ísland mega bæta sig í. Þau segja að þyngja þurfi svokallaðan grænan skatt, bæta sveigjanleika í aðalnámsskrá, auka aðgengi fatlaðs fólks í landinu, bæta aðgengi flóttamanna að heilbrigðiskerfinu og bæta aðgengi að tíðavörum, svo fátt eitt sé nefnt.

Katrín Jakobsdóttir hóf fundinn með ávarpi.
Katrín Jakobsdóttir hóf fundinn með ávarpi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vara við neysluhyggjunni

Að mati ráðsins er heimsmarkmiðið sem Íslendingar standa sig hvað verst í hið tólfta, sem kveður á um ábyrga neyslu og framleiðslu. Blaðamaður náði tali af hinum 15 ára Þresti Flóka Klemenssyni og hinni 17 ára Vigdísi Elísabetu Bjarnadóttur sem hafa bæði áhyggjur af neysluvenjum Íslendinga. 

Þau segja að Ísland sé ekki jafn vel sett og nágrannaríkin hvað sjálfbæra þróun varðar.

Telja þau að jafnaldra sína ekki jafn meðvitaða um sjálfbærni og neyslu sína. „Við sjáum það á því sem fólk er að kaupa, hvernig fólk er að kaupa. Við sjáum líka að fólk er ekki mikið að velta því fyrir sér hvað verður um vöruna eftir notkun,“ segir Vigdís.

Anja Sæberg, nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík og Íris Sævarsdóttir, …
Anja Sæberg, nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík og Íris Sævarsdóttir, nemandi í Verzlunarskóla Íslands, eru báðar fulltrúar ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fræðslu þurfi að bæta í skólunum

Anja Sæberg, 16 ára nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík, og Íris Sævarsdóttir, 16 ára nemandi í Verzlunarskóla Íslands, segja að þörf sé á fræðslu um neyslu landsmanna og áhrif hennar í skólum.

Þröstur Flóki Klementsson og Vigdís Elísabet Bjarnadóttir.
Þröstur Flóki Klementsson og Vigdís Elísabet Bjarnadóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir að ríkið hafi hingað til ekki verið að skipta sér mikið af skólahaldinu nema með setningu námsskrár og svo ytra mati á skólum. Hann segir að nú sé verið að vinna að nýrri stofnun við skólakerfið, sem á að koma næsta haust.

„Þetta með neysluna og fleiri áskoranir er eitthvað sem við verðum að taka inn í þá vinnu. Við erum nú að reyna að búa til farveginn til þess að geta gert m.a. þetta sem þau eru að nefna hérna,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Ég hef í hyggju að setjast betur með ungmennaráðinu að ræða þær breytingar.“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nánast ekkert kennsluefni um samkynhneigð og kynþáttafordóma

Ungmennaráðið þrýstir einnig á það að fræðsla um málefni hinsegin fólks sé aukin og jafnframt um kynþáttafordóma.

Anja og Íris eru báðar á fyrsta ári í framhaldsskóla og hvorug þeirra segist hafa fengið nokkurs konar kennslu um kynþáttafordóma á sinni skólagöngu.

„Það þarf að tala meira um þetta, gera þetta að meiri umræðu,“ segir Anja.  

Anja bætir við að kennsla um kynþáttafordóma sé sérstaklega mikilvæg með tilliti til stóraukins fjölda flóttamanna sem hefur leitað til landsins á síðustu misserum en fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd voru um rúmlega 1400 talsins á seinasta ári, sem er fordæmalaust.

Skortur á kennsluefni

Ásmundur Einar vill ítreka mikilvægi Samtakanna '78 í fræðslu barna um hinsegin málefni. Hann segir þó að gríðarlegur skortur sé á kennsluefni í þessum málaflokkum og vill að það sé bætt án þess að farið sé að „segja öllum nákvæmlega hvernig við kennum hlutina“. 

Hann segir að nánast ekkert námsefni sé til sem fjallar um hinsegin málefni eða kynþáttafordóma. „Það hefur ekki breyst mikið síðan ég var á þessum aldri við þessa nemendur sem voru að tala hér í dag,“ segir hann. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir vilja vita um vopnaburð ungmenna

Þegar erindum ráðsins var lokið fengu ráðherrar tækifæri til að spyrja út í það sem kynnt var. Margir ráðherrar furðuðu sig á því að ekki væri rætt um vopnaburð ungmenna í kynningu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og vildu endilega fá álit unga fólksins á slíku.

Þá sagði einn fulltrúi að það væri hægara sagt en gert að breyta vandamáli því að vopnaburður væri „að seytla inn í menninguna“. Annar sagði að foreldrar ættu einnig að vera vakandi yfir því hvort börn þeirra færu vopnuð í skólann.

„Þetta tengist náttúrulega ekkert heimsmarkmiðunum og er ekki í punktunum okkar en jújú, maður verður alveg var við þetta.“ segir Anja. Íris bætir því svo við hún verði mest var við þetta í fréttaflutningi frekar en í eigin nærumhverfi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að þetta vera merki um að þau mál sem berast á borð ríkisstjórnarinnar rími ekki endilega við þau mál sem liggi ungu fólki á hjarta.

„Það sem við höfum áhyggjur af er vaxandi ofbeldi, vaxandi vímuefnanotkun, vaxandi vanlíðan,“ segir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. „Þetta er mál sem við munum ekki leysa nema með þátttöku ungs fólks.“

Vigdís Elísabet Bjarnadóttir
Vigdís Elísabet Bjarnadóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgjast með næstu skrefum ráðherra

Undir lok fundar ungmennaráðsins sögðu fulltrúar ráðsins að þau myndu fylgjast grannt með næstu skrefum ráðherranna á samfélagsmiðlum, fréttum og í ræðustól á Alþingi, svo þeir myndu sjá til þess að heimsmarkmiðunum yrði fylgt.

„Ég fagna því,“ segir forsætisráðherra um eftirlit ungmennanna með ráðherrum. „Við viljum að ungt fólk taki þátt í stjórnmálum. Við viljum að það kjósi og við viljum að það bjóði sig fram.“ 

Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kveðst samhuga Katrínu í þeim málefnum. „Mér er mikið í mun að ungt fólk fylgist betur með pólitík og hafi skoðun á henni og kynni sér málefni,“ segir hún.

„Mér hefur þótt öll samskipti mín við ungmennaráðið gagnleg,“ segir Áslaug. „Það eru skýrar tillögur, góðar umræður og ég held að það sé mikilvægt að þróa þetta áfram svo þau komist nær því sem við erum að gera.“

„Við getum alltaf þroskað það hvernig samtalið er og leyft þeim að koma sínum skoðunum oftar á framfæri,“ segir Áslaug Arna „En líka bara að eiga opnara samtal um það sem er að gerast. Það er nú bara þannig að það þarf ekki hóp ef allir eru eins í hópnum.“

Að mestu sátt við viðbrögð ráðherra

Fulltrúar ungmennaráðsins, sem og ráðherrar, segja að samskipti við ríkisstjórnina séu afar mikilvæg. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra bauð þeim jafnvel á fund sinn til þess að ræða loftlagsmálin betur. 

„Mér leist ágætlega á viðbrögðin og finnst að þau útskýrðu líka vel þá vinnu sem þau eru með í undirbúningi“ segir Anja. Henni finnst þó að ráðherrarnir hefðu mátt taka meira til sín um það sem varðar vistsporið, græna skattinn „og eiginlega bara allt tengt umhverfismálum.“ 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
Ungmennaráð heimamarkmiða Sameinuðu Þjóðanna
Ungmennaráð heimamarkmiða Sameinuðu Þjóðanna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert