Hugmyndin kviknaði við eldhúsborðið heima

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði. Ljósmynd/Lilja Hrund

Á haustmánuðum í fyrra voru systkinin Lilja Hrund Jóhannsdóttir og Friðþjófur Orri Jóhannsson, ásamt mökum, að henda á milli sín hugmyndum við eldhúsborðið um möguleikann á að koma upp rafhlaupahjólaþjónustu í Snæfellsbæ og auðvelda þannig tengingu á milli Ólafsvíkur, Rifs og Hellissands, en bæði eru þau uppalin á Rifi. Eitt leiddi af öðru og hugmyndin er nú orðin að veruleika. „Áður en ég vissi af var þetta komið í gang,“ segir Lilja, en auk þess að standa á bak við rafhlaupaleiguna rekur hún ásamt öðrum bróður sínum tvo veitingastaði í Ólafsvík.

Leigan sem um ræðir kallast Snæhopp og er með sérleyfi frá Hopp og notast við sama app og samnefnd rafhlaupahjólaleiga. Þau eiga því hjólin, en borga fyrir aðgang að appinu, greiðslukerfinu og vörumerkinu. „Við gengum frá öllu í janúar og svo komu hjólin í byrjun mars,“ segir Lilja, en fyrstu rafhlaupahjólin komu á götuna í Snæfellsbæ um páskana. Á sumardaginn fyrsta víkkuðu þau svo út starfssvæðið og var þá rafhlaupahjólum komið fyrir í Grundarfirði og í Stykkishólmi. Samtals eru þau með 20 stykki í Stykkishólmi, 15 í Grundarfirði og 25 í Snæfellsbæ, samtals 60 rafmagnshlaupahjól.

Lilja segir að þau hafi rennt nokkuð blint í sjóinn varðandi hversu mörg hlaupahjól þyrfti og að enn sem komið er sé nægjanlegt framboð. Það eigi hins vegar eftir að koma betur í ljós þegar ferðamannastraumurinn skelli að fullu á í sumar hvort þetta hafi verið nægur földi.

Upphaflega hugmyndin að hennar sögn var að bjóða upp á einfaldari ferðamáta á milli staða í Snæfellsbæ. Fyrir nokkrum árum var lagður göngu- og hjólastígur alla leiðina frá Ólafsvík á Rif og Hellissand og segir Lilja það fullkomið fyrir rafmagnshlaupahjólin. Þá segir hún að mögulegt sé að fara fram og til baka á einni hleðslu og að fólk sé farið að nýta sér það í auknum mæli. Hún segir heimamenn hafa tekið vel í þetta í öllum sveitarfélögunum og sérstaklega sé notkunin mikil í Snæfellsbæ. „Ólafsvík er auðvitað ein brekka,“ segir hún hress.

Markhópurinn hefur að mestu verið ungt fólk og ferðamenn en Lilja segir að eldra fólkið þurfi smátíma til að læra inn á þetta.

Eins og fyrr segir rekur Lilja ásamt bróður sínum tvo veitingastaði í Ólafsvík, Sker og Reks, en Sker er heilsársstaður en Reks rekinn hluta úr ári. Þá eru bræður hennar og eiginmaður líka á sjó og með útgerðir, þannig að nóg er um að vera á heimilunum. Þar sem fjölskyldan er nokkuð tengd ferðaþjónustunni segir hún oft koma upp umræður um hvað hægt sé að gera til að auka framgang greinarinnar og draga að ferðamenn. „Við fáum margar hugmyndir og sumar fara í framkvæmd,“ segir Lilja. Þeim hafi strax litist vel á rafhlaupahjólin, ekki síst til að byggja undir aðra þjónustu á svæðinu. „Ég verð seint milljónamæringur á þessu einu saman,“ segir Lilja hlæjandi, en bætir við að auðvitað sé markmiðið að leigan standi undir sér.

Hún segir innbyggt í þau að ráðast í hlutina ef það komi fram góðar hugmyndir en bíða ekki eftir öðrum. „Ef við gerum þetta ekki, hver gerir þetta þá,“ segir hún. Systkinin og makar sjá um leiguna í aukavinnu, en auk þess er einstaklingur sem aðstoðar þau í Stykkishólmi við að skipta um batterí. „En ef eitthvað bilar sjáum við um það sjálf,“ segir Lilja. Um hálfsársþjónustu verður að ræða, en Lilja á von á því að þau taki hlauphjólin inn í september eða október. Þá útilokar hún ekki að farið verði í frekari útþenslu ef vel tekst til. Nefnir hún þannig að gaman væri að hafa hlaupahjól til að fara á milli Arnarstapa og Hellna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert