Hjólaverkefni framundan á höfuðborgarsvæðinu

Uppbygging hjólainnviða á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram af nokkrum myndarbrag á þessu ári gangi allar áætlanir sveitarfélaga og Vegagerðarinnar eftir í þeim efnum. Enn eru þó nokkur verkefni í gangi sem áttu að klárast í fyrra en verklok þeirra frestuðust eða framkvæmdum var frestað um lengri tíma. Þá hafa ný verkefni litið dagsins ljós þar sem áformað er að fara langt í hönnun eða jafnvel hefja framkvæmdir á þessu ári.

Hjólablaðið hafði samband við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðina og fékk svör varðandi stöðu áður kynntra verkefna og nýrra sem væru komin á teikniborðið. Meðfylgjandi er samantek á þeim svörum, en rétt er að taka fram að ekki bárust svör frá Seltjarnesbæ í tæka tíð.

Það sem hefur klárast

Ef við byrjum á að fara yfir framkvæmdir sem kláruðust á síðasta ári eða eru svo gott sem fullfrágengnar má fyrst nefna tvö verkefni í Mosfellsbæ: ævintýragerði (Leirvogstunga-miðbær Mosfellsbæ) og stíg fyrir neðan Súluhöfða.

Í Reykjavik var lokið við aðskilinn hjóla- og göngustíg við Rafstöðvarveg frá Bíldshöfða fram hjá Toppstöðinni. Þá kláraðist kafli í Gufunesi, en frekari áform eru þar samhliða uppbyggingu á komandi árum. Þá kláraðist fyrsti kaflinn af efri hluta Elliðaárdals, en sú framkvæmd náði frá Höfðabakkabrú upp að gömlu Vatnsveitubrúnni (fyrir neðan Árbæjarlaug). Framhald þessara framkvæmda má lesa um síðar í greininni. Gríðarlega mikilvæg framkvæmd, en lærdóm þarf að draga af því undirlendi sem þarna er unnið með. Ef hjólastígurinn á að verða langlífur þarf að reyna að gera betur þannig að mýrlendið valdi ekki strax skemmdum með mishæðum sem geta reynst hjólreiðafólki hættulegt. Langþráður lokahnykkur á hjólastíginn við Ánanaust hefur einnig litið dagsins ljós, en nú er kominn aðskilinn hjólastígur frá Ánanaustum alla leið að Gróttu. Enn stendur yfir frágangsvinna og þá sérstaklega fyrir gangandi, en svæðið er allt að verða hið fegursta. Að lokum kláruðust í vetur undirgöng undir Litluhlíð og tenging við stíginn sem kemur frá Veðurstofuhæðinni.

Í Garðabæ var tekinn í notkun stígur um Garðahraun frá iðnaðarsvæðinu yfir að Ásgarði. Í nokkru framhaldi þaðan koma svo undirgöng undir Hafnarfjarðarveg sem lokið var við og tengjast þau á nýjan stíg niður í Sjálandshverfi. Einnig er unnið að stígagerð í tengslum við uppbyggingu í Vetrarmýri og er sumu lokið.

Áður tilkynnt verkefni

Af verkefnum sem áður hafa verið kynnt og eru enn í vinnslu ber fyrst að nefna undirgöng á Arnarnesi. Upphaflega var áformað að klára þau í fyrra, en verklok eru núna áformuð í maí/júní. Í Hafnarfirði verður haldið áfram með 3 km stíg meðfram Kaldárselsvegi og lokahönd verður lögð á 700 metra kafla meðfram Strangötu frá Reykjanesbraut að Flensborgartorgi í maí. Áður hafði einnig verið greint frá því að í bígerð væri er stígur sem á að vera sunnan vegamóta Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar/Reykjavíkurvegar við Norðurbæinn í Hafnarfirði og mun stígurinn ná að Hjallabraut. Er í raun um að ræða tvær 600 metra framkvæmdir, en undirbúningur er í gangi. Er þetta samvinnuverkefni með Vegagerðinni, en um er að ræða mikilvægan hluta af því sem hefur verið kallaður norður-suður ás þvert á sveitarfélögin í gegnum Kópavogshálsinn, Arnarnesið og svo í Hafnarfjörð.

Í Kópavogi hafði áður verið greint frá stíg meðfram Lindarvegi á milli Fífuhvammsvegar og Arnarnesvegar og fer hann í framkvæmd í ár. Mun sá stígur að öllum líkindum tengja saman hjólandi umferð sem kemur úr Mjóddinni (þegar Þverársel klárast – sjá síðar) og í gegnum Lindirnar áfram á leiðinni suður í Garðabæ og Hafnarfjörð.

Áformað hafði verið að hefja framkvæmdir á stíg bæði norðan og sunnanmegin á Kópavogshálsinum. Norðanmegin var horft til stígs um Ásbraut, en þar hefur hingað til verið merkt hjólamerki á akbrautinni. Sunnanmegin átti einnig að hefja framkvæmdir um stíg á milli Kópavogstúns og Borgarholtsbrautar meðfram Hafnarfjarðarveginum. Tafir verða á báðum þessum framkvæmdum en nú er horft til þess að þær gætu hafist á næsta ári.

Í Reykjavík var horft til þess að geta hafið framkvæmdir við stíg um Skógarhlíð, í beinu framhaldi af undirgöngum um Litluhlíð, í lok síðasta árs. Enn er verkhönnun ókláruð og óljóst með framkvæmdir, en vonast er til þess að þær geti hafist í sumar. Eftir að stígnum um Suður-Mjódd var lokað hefur verið beðið þess að stígur um Þverársel komi, en hann yrði fyrir ofan þær lóðir sem byrjað er að byggja á. Þar með er verkefnið hluti stærri framkvæmda, en þær verða í gangi fram á sumarið.

Í Elliðaárdal hefur verið unnið frá í fyrra við áfanga tvö í efri hluta Elliðaárdals, frá Vatnsveitubrú upp að svæði sem kallast Grænugróf. Á þessum áfanga að ljúka með vorinu eða snemmsumars. Í framhaldinu er á að fara í seinasta hlutanum sem nær til nýrrar brúar yfir Elliðaárnar í Grænugróf og svo hjólastíg langleiðina upp að Breiðholtsbraut. Gangi verkhönnun vel er útboð áætlað með haustinu og að framkvæmdir hefjist í kjölfarið. Við Breiðholtsbraut er svo í raun lokaáfanginn, en það er brú yfir Dimmu, þar sem nú er gömul hitaveitubrú sem er illfær um vetur. Útboðið er í gangi til 9. maí en með framkvæmdir við árnar þá er slíkt ekki heimilt yfir sumartímann og má því ekki búast við framkvæmdum fyrr en í haust.

Mun neðar í Elliðaárdal, eða þar sem gamli hitaveitustokkurinn lá rétt ofan Miklubrautar, stendur svo forhönnun yfir fyrir nýja brú, en hitaveitustokkurinn var rifinn fyrir nokkru. Þar er einnig stefnt að því að framkvæmdir geti hafist í haust og staðið fram á vorið 2024. Sama gildir þar um framkvæmdatíma og með brýrnar ofar við árnar.

Á Réttarholti hefur verið unnið undanfarin ár með hjólastíg frá Grensásvegi í austurátt. Á nú að bjóða út þann hluta sem nær frá Réttarholtsvegi að Sogavegi og eru framkvæmdir áformaðar í sumar og fram á haust. Við gatnamót Bústaðarvegar og Háaleitsbrautar áttu framkvæmdir að hefjast í fyrra við að koma upp aðskildum göngu- og hjólaleiðum með tengingum við aðliggjandi stíga. Tafir urðu meðal annars vegna breytinga á síðari stigum sem tengdust umferð sjúkraflutningabifreiða, en nú er áformað að verkið verði unnið í sumar. Að lokum er á Kjalarnesi áfram unnið að stíg samhliða nýjum vegi sem þar er í framkvæmd.

Ný verkefni

Samkvæmt svörum frá Mosfellsbæ er nú í útboði göngu- og hjólastígatenging í Reykjahverfi, en um er að ræða seinni hluta af tengingu inn í hverfið. Í Hafnarfirði hefur verið boðinn út gerð nýs stígs við Reykjanesbraut frá Hraunavíkurvegi út í Straum. Er um að ræða tengingu frá Álverinu að skólpstöðinni sem er við enda golfvallarins, en þetta er hluti af tvöföldun Reykjanesbrautar.

Í Garðabæ á að hefja framkvæmdir við stíg austanmegin við Reykjanesbraut í Vífilstaðahrauni frá Urriðaholti að Vífilstöðum. Einnig á að halda áfram með stígagerð í Vetrarmýri samhliða uppbyggingu þar og á Álftanesi vegna nýrra hverfa.

Í Reykjavík er búið að vinna forhönnun á nýjum gatnamótum við Borgartún og Kringlumýrarbraut. Þar er gert ráð fyrir hjólastígum í gegnum gatnamótin, en enn hefur ekkert verið ákveðið með framkvæmdatíma. Einnig er forhönnun klár vegna tengingar um Vegmúla upp frá Suðurlandsbraut og inn í Múlahverfi. Þar liggur framkvæmdatími ekki heldur fyrir, en verkefnið helst í hendur við vinnu við borgarlínu og fyrirhugaða þjóðarhöll samkvæmt svörum borgarinnar. Um Krókháls, Dragháls og Höfðabakka hefur svo um nokkurt skeið verið til skoðunar að leggja hjólastíg í gegnum Hálsahverfið. Ekkert liggur þó fyrir um framkvæmdatíma þar heldur.

Þá hefur borgin sett fram áform um tvöfaldan göngu- og hjólastíg frá Bæjarhálsi niður að Rafstöðvarvegi, gegnt Árbæjarsafni. Þaðan liggja undirgöng niður á Rafstöðvarveg, en áformin gera svo ráð fyrir að stígurinn haldi áfram vestan megin yfir Elliðaárnar og inn á stígakerfið meðfram Stekkjarbakka og upp í Breiðholt. Frumhönnun stendur enn yfir með þessa framkvæmd.

Í Suðurhlíðum er svo forhönnun lokið á hjólastíg niður frá Bústaðavegi meðfram Hafnarfjarðarvegi að göngu- og hjólabrúnni. Vonast borgin til að geta boðið verkið út á árinu. Þá er í Gufunesi unnið að undirbúningi á sameiginlegum göngu- og hjólastíg frá Hamrahverfi í Grafarvogi yfir í nýja byggð í Gufunesi. Engin tímarammi er kominn á þetta, en möguleiki er að eitthvað fari að gerast á næsta ári. Einnig er unnið að endurhönnun Rofabæjar sem borgargötu með tilheyrandi hjólastígum. Fyrirhugaðar framkvæmdir við Faxaskjól/Sörlaskjól hafa hins vegar verið settar í biðstöðu vegna andstöðu íbúa við fyrirliggjandi hönnun stígs þar. Ekkert tímaplan liggur sem stendur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert