Fannst á Suðurnesjum eftir níu mánuði í felum

Dómur féll árið 2020 sem gerði manninum að sæta fangelsi …
Dómur féll árið 2020 sem gerði manninum að sæta fangelsi í ellefu ár og hálft fyrir manndrápstillraun. AFP

Nígerískur maður sem hefur verið eftirlýstur af ítölskum yfirvöldum fannst í felum á Íslandi. Maðurinn hefur verið sakfelldur um manndrápstilraun og hefur nú verið framseldur til Ítalíu.

Vísir sagði fyrst frá. Fjöldi ítalskra miðla hefur einnig fjallað um málið.

Hrottaleg tilraun til manndráps

Maðurinn, sem er 43 ára, var dæmdur fyrir tilraun til manndráps, sem var gerð 3. apríl 2011. Hann var þá í hópi erlendra borgara sem réðust á 24 ára mann sem er einnig af nígerískum uppruna.

Árásarmennirnir voru vopnaðir kylfum, keðjum og sveðjum. Lögreglan stöðvaði árásina en ungi maðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann hafði hlotið fjölda áverka.

Árásin átti sér stað í hverfinu Tor Bella Monaca í Róm, en hverfið er gjarnan talið eitt það hættulegasta í Rómarborg.

Rannsókn á árásinni leiddi lögregluna að íbúðarhúsnæði þar sem árásarmennirnir dvöldu. Þar voru ellefu nígerískir einstaklingar handteknir sem allir áttu hlut í árásinni, þar á meðal sá maður sem hér um ræðir.

Flúði við fyrsta tækifæri

Dómur féll gegn manninum á fyrsta dómstigi árið 2013, sem síðan var staðfestur af áfrýjunardómstóli. Hæstiréttur Ítalíu ómerkti dóm mannsins árið 2016 og vísaði aftur til neðra dómsstigs. Manninum var hleypt úr gæsluvarðhaldi en hann hafði þá setið inni í þrjú ár. Hann ákvað að flýja Rómarborg og var handtökuskipun á hendur honum gefin út í febrúar á þessu ári.

Endurnýjaður dómur féll yfir manninum árið 2020 og var hann þá dæmdur í fangelsi í ellefu ár og sex mánuði. Dómnum var áfrýjað en beiðninni um áfrýjun var hafnað.

Fannst á Suðurnesjum

Maðurinn hafði verið á flótta í tíu mánuði þegar lögreglan á Íslandi fann manninn á Suðurnesjum. Hann segist sjálfur hafa verið á landinu í um níu mánuði, eða frá því í júní.

Samkvæmt úrskurði Landsréttar vildi maðurinn ekki tjá sig um sakargiftir og málsatvik við lögreglu. Hann vildi ekki verða afhentur ítölskum yfirvöldum og óttaðist að hann yrði drepinn í fangelsi þar ef til þess kæmi.

Maðurinn reyndi einnig að halda því fram að hann hefði ekki vitað af ellefu ára fangelsisdómnum yfir sér. Honum reyndist heldur ekki kleift að gera grein fyrir hvenær hann hefði verið hnepptur í varðhald né hvenær honum hefði verið sleppt úr fangelsi. Maðurinn sagðist hafa orðið fyrir áfalli af völdum fangelsisdvalarinnar, sem hefði haft slæm áhrif á minni hans af atburðunum.

Ríkissaksóknari tók ákvörðun hinn 23. mars síðastliðinn um að fallast á beiðni ítalskra yfirvalda um að senda manninn til Ítalíu og hinn 14. apríl síðastliðinn staðfesti Landsréttur ákvörðunina.

Hann var handtekinn af ítölsku lögreglunni þegar hann lenti á Fiumicino-flugvellinum í Róm hinn 21. apríl síðastliðinn og var hann fluttur í Civitavecchia-fangelsið að beiðni yfirvalda.

Il Messaggero

Roma Today

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert