Ofbeldið verði hversdagslegt og eðlilegt

Vopnaburður hefur aukist hjá ungmennum og aðallega ungum drengjum. Ragný …
Vopnaburður hefur aukist hjá ungmennum og aðallega ungum drengjum. Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor hjá Háskóla Íslands, segir að það gæti verið orsakað af því efni sem ungmenni sjá á netinu. Samsett mynd

Aukinn vopnaburður ungmenna tengist mögulega því að börn verja nú meiri tíma á netinu en áður. Foreldrar þurfa að vera meðvitaðri um það að efni sem börn þeirra neyta á samfélagsmiðlum. Þetta segir Ragný Þóra Guðjohnsen, lektor hjá Háskóla Íslands og sérfræðingur á sviði áhættuhegðunar ungmenna. 

 „Börn og ungmenni eiga ekki að þurfa vopn í umhverfi sínu til að verja sig,“ segir Ragný í samtali við mbl.is, en samkvæmt henni hefur áhættuhegðun ungmenna aukist verulega á síðustu misserum.

„Í umhverfi barna verða þau mikið vör við umfjöllun um ofbeldi, í fréttum, TikTok og fleiri samfélagsmiðlum. Þannig verður ofbeldið eins og eitthvað hversdagslegt og eðlilegt enda komið inn í stofu í símanum þeirra,“ segir hún.

„Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir því sem börn og ungmenni eru að horfa á. Fjölskyldan þarf að ræða saman, skiptast á skoðunum og útskýra þarf að ofbeldi á ekki rétt á sér. Að við séum hluti af samfélagi og í því felist að vera í góðum samskiptum við annað fólk. Það sé öllum fyrir bestu.“

Um 30% 7. bekkinga orðið fyrir ofbeldi á sl. 12 mánuðum

Auk þess að vera lektor hjá HÍ er Ragný faglegur stjórnandi Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem Menntavísindastofnun framkvæmir á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Árlega svara börn og ungmenni á grunnskólaaldri könnun og fyrstu tölur mála fremur svarta mynd af líðan barna.

Ragný segir að um þriðjungur barna lýsi kvíða, erfiðleikum með að sofna og pirringi. Auk þess upplifi 15% börn og ungmenni sig utangarðs í skólakerfinu. Hún segir að það geti átt sér ýmsar skýringar, t.d. verið tengt námserfiðleikum eða erfiðleikum í félagslegum samskiptum við jafnaldra.

Ragný segir að á miðskólastigi grunnskólans þegar börn eru um 10-12 ára aldur, sé einelti hvað algengast en algengt er að 20% lýsi vanlíðan vegna þess að vera skilin útundan eða vegna framkomu eða ummæla jafnaldra.

Það sem könnunin gaf einnig í ljós í ár var það að 30% barna í 7. bekk segjast hafa orðið fyrir ofbeldi á seinustu 12 mánuðum. Til samanburðar voru um 16% nemenda í 10. bekk sem sögðu það sama.

Ragný segir að slík áföll skapi mikla vanlíðan þolenda og búi þau einnig við erfiðar aðstæður heima aukist líkur á að þau sæki í jaðarhópa og taki þátt í ýmis konar áhættuhegðun. Þau ungmenni fara síður í framhaldsskóla og eru líklegri til þess að leita í neyslu og „þegar sú breyta er komin inn, eykst hættan á ofbeldishegðun.“

Refsing ekki lausnin

Þingmaður lét þau orð falla í ræðustól Alþingis í síðustu viku að þörf væri á ákveðnum aga og skilningi á því hvað megi og hvað megi ekki í ljósi fjölgun ofbeldisglæpa. Ragný segir að lausnin sé fræðsla, fremur en refsing.

„Við erum að tala um börn og ungt fólk. Þegar hegðunin er orðin með þessum hætti, þá er ljóst að þeim líður ekki vel og þau þurfa stuðning inn í líf sitt“ segir hún. „Þetta er oftast birtingarmynd annars alvarlegs vanda í lífi barnsins svo sem áfalla, erfiðleika í félagslegum samskiptum, erfiðra heimilisaðstæðna eða vímuefnaneyslu.

Hún segir að frá fæðingu þurfi að hlúa að gildismati og samskiptahæfni barna og grípa þau börn sem eiga við hegðunarvanda að stríða. Strax í leikskóla megi oft greina einkenni hjá börnum „sem setja þau í áhættuhóp“ og ef ekki er gripið inn í þá, sé erfiðara að gera það síðar.

Áhættuhegðun eftirköst COVID?

Ragný segir að eftir eigi að skoða í rannsóknum hvaða þættir tengist þeirri aukningu áhættuhegðunar sem sést hafi á síðustu misserum hjá ungu fólki. Hún veltir því fyrir sér hvort það hafi eitthvað með COVID-19 faraldurinn að gera.

„Í kreppunni árið 2008 var dregið mikið úr ýmsum stuðningsúrræðum við börn og ungmenni. Það sýndi sig svo fimm árum seinna á BUGL, þegar það varð mikil bylgja í vanlíðan hjá börnum og ungmennum.“

Hún segir að í faraldrinum hafi tilkynningar til barnaverndar aukist mikið, meðal annars um heimilisofbeldi og veltir hún því fyrir sér hvort við séum að sjá eftirköstin af því hjá ungu fólki nú. Hún segist þó ekki geta fullyrt um þetta enda eigi eftir eigi að rannsaka þessa þætti.

Ofbeldi gegn starfsfólki skóla og frístundarheimila

Dæmi eru um það að nánast fullvaxin börn beiti fullorðið fólk ofbeldi, til að mynda starfsfólk skóla og félagsmiðstöðva. Ragný segir að slík dæmi geti orðið þegar einstaklingar fái ekki næga aðstoð á uppeldisárunum.

„Það þarf að horfa á stóra samhengið þegar þetta er rætt,“ segir hún. „Sem dæmi að skoða hvaða þjónusta hafi verið í boði fyrir sístækkandi hóp drengja og ungra manna með einhverfugreiningu. Þegar þeir vaxa úr grasi og hafa ekki fengið þau stuðningsúrræði sem þarf, getum við staðið frammi fyrir þessari stöðu.“

Ragný Þóra segir að þarna þurfi inngrip sérfræðinga, en þeir séu ekki nægilega margir. Mikill skortur sé á þjónustuúrræðum við þessi börn og börn með annars konar þjónustuþarfir. „Það þarf að grípa þau strax og er það einmitt meginmarkmið farsældarlaganna sem verið er að innleiða,“ segir hún.

Stúlkur drekka jafn mikið og strákar

Ragný segir að það þurfi einnig að vera mjög vakandi fyrir vímuefnaforvörnum ungs fólks, og að foreldrar þurfi að vera vakandi fyrir breytingum hjá börnunum sínum: „Eru þau farin að umgangast nýja vini?, Er breytt svefnmynstur?, Meiri pirringur? og svo framvegis,“ segir Ragný.

Hún segir að stúlkur séu líklegri en strákar til þess kljást við kvíða og þunglyndi þegar þær eru komnar á unglingsaldur. Hegðunarvandi sé á hinn bóginn algengari hjá drengjum og hingað til hafa þeir sótt meira í harðari vímuefnaneyslu en stúlkurnar.

„Flestar mælingar okkar eru þó í hópi nemenda en sá hópur sem fer í mikla neyslu er ekki að svara þeim könnunum þannig að við vitum ekki alveg hlutfall kynjanna,“ segir Ragný.

Foreldrar þurfi líka fræðslu

Ragný segir að þörf sé á aukinni fræðslu og ráðgjöf handa foreldrum en að oft geti verið erfitt fyrir foreldra að grípa inn í eða vita hvert er hægt að leita. Þróunin virðist vera sú að börnin eru að fara hraðar inn í neysluna en áður var. Krakkarnir eru í blandaðri neyslu „en svo koma toppar í ákveðnum efnum eins og með ópíóíðafaraldurinn núna“.

Hún segir að foreldrafélög og skólar þurfi að vinna saman í að fræða börnin. Síðan þurfi að koma með kennslufræðilegan stuðning inn í skólana við kennara og starfsfólk. Nú liggi fyrir frumvarp til laga um þjónustustofnun á sviði menntamála en Menntamálastofnun var lögð niður í fyrri mynd. Stofnunin mun veita aðgang að þverfaglegri sérfræðiþjónustu þannig að börn festist ekki á biðlistum eftir aðstoð.

„Vonir standa til þess að skólaþjónustustofnunin geti orðið mikilvægur hlekkur í að grípa börn snemma sem sýna einkenni um hegðunarvanda, vanlíðan, námserfiðleika og svo framvegi,“ segir Ragný. „Allt þetta er hugsað til þess að tryggja snemmbært inngrip því það er alltaf auðveldara að fyrirbyggja vanda en að grípa inn í þegar vandinn er orðinn verulegur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert