Í einhverjum tilfellum áttu fjárskuldbindingar ráðherra í kringum kosningar 2021 sér ekki stoð í fjárlögum eða samþykktum ríkisstjórnarinnar eða Alþingis. Þá höfðu ekki öll ráðuneytin sett sér reglur um styrkveitingar né hafði í öllum tilfellum verið auglýst eftir styrkumsóknum í samræmi við slíkar reglur. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í samantekt Ríkisendurskoðunar á fjárskuldbindingum ráðherra í aðdraganda Alþingiskosninga 2021.
Þar kemur jafnframt fram að Ríkisendurskoðun telji að gæta hefði mátt betur að gagnsæi í tengslum við skuldbindingar ríkissjóðs sem tengjast byggingu nýs flugskýlis fyrir Landhelgisgæsluna sem samið var um í júlí 2021. Einkafyrirtæki, sem þó er endanlega í 100% eigu ríkisins, sér um fjármögnun verkefnisins með lántöku og helst hún því utan A1-hluta ríkissjóðs og er þar með ekki tekin með í útreikningi á skuldahlutfalli ríkissjóðs. Þá er engin starfsmaður í félaginu og ekki talið að þar sé fyrir hendi sérþekking á byggingaframkvæmdum.
Alþingi samþykkti beiðni um skýrslu frá ríkisendurskoðanda um „framlög, styrki, viljayfirlýsingar, fyrirheit og samninga allra ráðherra sem kunna að fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð“ í desember 2022, en líta átti til tímabilsins frá því að þing lauk störfum í júní þetta sama ár og þangað til það kom aftur saman í nóvember eftir kosningar.
Beiðnin frá Alþingi, sem lögð var fram að öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar hljómaði á eftirfarandi hátt:
Í greinargerð segir að í aðdraganda kosninga hafi borið á því að ráðherrar „hefji úthlutanir til einstakra mála í stórum stíl til að vekja athygli á sér og sínu framboði. Einnig að ráðherrar lofi fjárveitingum sem ekki hafa komið til formlegrar umræðu á Alþingi.“ Eru sérstaklega nefnd þrjú dæmi í kringum síðustu kosningar, en það voru loforð um fjárveitingar til byggingar geðdeilda, nemendagarða og þyrluskýla. Segir í greinargerðinni að skýrslubeiðendur telji ólýðræðislegt að svo sé farið með almannafé og að ráðherrar séu að misnota aðstöðu sína.
Tekið er fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að í flestum tilvikum hafi fjárskuldbindingar ráðherra á fyrrnefndu tímabili átt sér stoð í fjárlögum eða samþykktum. Þá hafi flest ráðuneyti sett sér reglur um styrkveitingar og auglýst eftir styrkumsóknum í samræmi við þær. „Það átti þó ekki við í öllum tilvikum,“ segir í skýrslunni.
Þannig er nefnt að svör ráðuneyta, þegar ekki var auglýst eftir umsóknum, hafi gjarnan verið að um sérstök verkefni væri að ræða sem aðeins einn aðili eða félag sinnti. Því hafi ekki hallað á aðra þótt styrkir hafi verið ákveðnir án auglýsinga og umsóknarferlis. Tekur Ríkisendurskoðun fram að þessi rök geti átt við í einhverjum tilvikum, en sérstaklega er þó hvatt til þess að meginreglan sé að styrkveitingar séu auglýstar.
Segir Ríkisendurskoðun jafnframt að flest ráðuneytin hafi getið um styrki og framlög í fylgiriti með fjárlögum og í ársskýrslum sínum. Það hafi þó ekki átt við öll ráðuneytin og brýnir Ríkisendurskoðun ráðuneytin til að bæta úr þessu.
Tekið er fram að Ríkisendurskoðun hafi ekki forsendur til að meta hvaða mál ráðherrar gætu hafa veitt fé til í tengslum við kosningabaráttu sína, en tekur fyrir þau þrjú mál sem sérstaklega eru nefnd í beiðninni; byggingu flugskýlis fyrir Landhelgisgæsluna, byggingu nýs húsnæðis fyrir geðdeild Landspítala og byggingu nemendagarða á Flateyri.
Segir Ríkisendurskoðun að úttekt, sem unnin var til að skoða möguleika á að bæta nýbyggingu fyrir starfsemi geðdeildar við Nýjan Landspítala, hafi fallið undir þróunarverkefni sem þegar var innan fjárlaga. Ekki hafi falist frekari beinar skuldbindingar fyrir ríkissjóð í yfirlýsingum ráðherra. Varðandi byggingu nemendagarðanna hafi ráðherra ekki haft neina beina aðkomu að ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um veitingu stofnframlags upp á 134 milljónir til verksins. Slíkt fari í gegnum viðeigandi ferli þar sem stofnunin sjái um úthlutun. Hann hafi þó hins vegar kynnt framlagið á skólasetningu skólans.
Ríkisendurskoðun gerir hins vegar athugasemdir við framkvæmdina í kringum fjárveitingu vegna byggingar flugskýlisins. Er þar rakið að heimild hafi verið fyrir kaupum eða leigu á nýju skýli fyrir Landhelgisgæsluna. Var fjárheimild gæslunnar vegna þessa aukin um 50 milljónir vegna leigugreiðslna.
Í júlí 2021 gerði gæslan samning við félagið Öryggisfjarskipti ehf. um að það myndi byggja flugskýlið og gæslan myndi svo leigja það. Var áætlaður kostnaður metinn 1,2 milljarðar og er útlit fyrir að sú áætlun standist nokkurn veginn. Tóku Öryggisfjarskipti lán á almennum markaði vegna þessa og bendir Ríkisendurskoðun á að ríkið eigi að geta fengið betri lánskjör. Með þessu fyrirkomulagi hafi hins vegar fjármögnunin verið færð út fyrir A1-hluta ríkissjóðs og mun skuld vegna verkefnisins koma fram undir A3-hluta í ríkisreikningi fyrir síðasta ár.
„Ríkisendurskoðun telur að rétt hefði verið að gæta betur að gagnsæi varðandi þessa skuldsetningu og bendir jafnframt á að ríkinu bjóðast almennt betri lánakjör en fyrirtækjum sem taka lán á almennum markaði.“ Segir Ríkisendurskoðun að gæslan eigi ekki að þurfa að gjalda fyrir þetta fyrirkomulag með hærri leigugreiðslum.
Þess ber að geta að Öryggisfjarskipti eru 25% í eigu Neyðarlínunnar ohf. og 75% í eigu ríkisins, en Neyðarlínan er svo 100% í eigu ríkisins. Er einkahlutafélagið því endanlega allt í eigu ríkisins. Bendir Ríkisendurskoðun á að Öryggisfjarskipti hafi ekki neinn starfsmann eða raunverulegan rekstur, því Neyðarlínan sér um rekstur og starfsemi þess. Þá er Neyðarlínan líka stærsti viðskiptavinur þess.
Var félagið fengið til að annast byggingu skýlisins vegna anna hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, samkvæmt svari frá fjármála- og efnahagsráðuneytisins og var því annar aðili fundinn til verksins.
Í skýrslunni leggur ríkisendurskoðandi fram tvær ábendingar í kjölfar skoðunar sinnar. Annars vegar að ráðuneytin uppfæri og birti öll reglur um styrkveitingar. Þá eigi meginreglan að vera að auglýsa allar styrkveitingar og að umsóknarferlið sé í samræmi við reglurnar. Í öðru lagi þurfi að gæta að gagnsæi við skuldsetningu verkefna á vegum ríkisins og er sérstaklega vísað til þess að forðast beri að láta félög sem ekki búi yfir mannauði og sérþekkingu á sviði byggingaframkvæmda að sjá um framkvæmdir og lántöku vegna þeirra.